2634 - Antifa

Eiginlega er dálitið erfitt að blogga núna án þess að minnast á Barcelona. Bergur Ebbi hefur þó sagt nóg um það mál fyrir mína parta í Fréttablaðinu í dag. Það hræðilega mál er varla hægt að minnast ógrátandi á.

Hvað er antifa? Veit það ekki nákvæmlega. Held að það séu einhverskonar samtök. Þó ekki skipulögð. Íslenska orðið sem e.t.v. nær þessu nokkurnvegin er „aðgerðarsinni“. Einkum eru það hægrisinnar sem nota þetta og kalla flesta sem þeim er illa við „antifa“. Held að það sé myndað úr orðunum anti og fascist. Semsagt einskonar andfasisti. Líklega er það mest notað í Bandaríkjunum. Kannski það sé það sem Trump kallar alt-left. Ekki eru allir þjóðernissinnar rasistar og ekki eru allir alþjóðasinnar antifa. Flestir alþjóðasinnar held ég aftur á móti að séu vinstrisinnar. Kannski væri réttara að kalla þessar andstæðu fylkingar einangrunarsinna og opingáttarmenn. Hægrimenn virðast flestir vera þjóðernissinnar og opingáttarmenn rekast illa í stjórnmálaflokkum. En nú er ég kominn út í pólitískar útskýringar og þar er ég ekki nógu sleipur.

Í USA er allt að verða vitlaust útaf einhverri styttu sem átti að taka niður. Hér á ísa köldu landi er aftur á móti rifist af miklum móð útaf einhverjum vegg sem var málaður. Er þetta sambærilegt? Kannski. Ríkisstjórnin eða a.m.k. BB er alltaf að reynda að líkjast stóra frænda fyrir vestan. Við erum samt, hvað mannfjölda snertir, aðeins um þúsundasti partur af  bandaríska ríkjasambandinu.

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins virðast álíta eða hafa álitið hingað til að þeir ættu meira sameiginlegt með Repúblikönum í Bandaríkjunum en Demókrötum. Svo er samt alls ekki. Samanborið við Evrópu eru Bandaríkjamenn til hægri við næstum allt í pólitík. Nasistar eru kannski til hægri við þá í sumu.

OK, Trump er a.m.k. mjög umdeildur forseti. Hvort það sé rétt að kalla hann öfgasinna eða jafnvel rasista leyfi ég öðrum að dæma um. Hægri sinnaður er hann. Á því er enginn vafi. Og kannski selebritysinnaður. Úr því að Trump gat unnið Hillary hefði sennilega hvaða repúblikani sem er getað það. Ekki var hægt að hrófla við henni frá vinstri. Það reyndi Sanders. Forseta Bandaríkjanna verður ekki komið frá nema með málsókn. Það tókst með Nixon, en mistókst með Clinton. Kannski verður það reynt núna. Efast samt um það.

Mér er sagt að Trump Bandaríkjaforseti sé að verða um það bil jafnóvinsæll í skoðanakönnunum og íslenska ríkisstjórnin. Er þá langt til jafnað. Held samt að pokinn margfrægi verði kyrr á sínum stað. Altsvo að enginn taki hann.

Verðlag á knattspyrnumönnum er hlægilegt og laun þeirra jafnvel líka. Annars eru þetta bara tölur á blaði og á meðan sauðheimskur almúginn heldur áfram að álíta fótbolta mikilvægari en allt annað þá er ástæðulaust að búast við breytingu. „Brauð og leika“ sögðu Rómverjar forðum og höfðu sennilega rétt fyrir sér. Hér hættum við antisportistar, en á Bifröst forðum var ég talinn til þeirra.

2012 08 03 13.41.57Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband