2618 - Rangur misskilingur

2618 – Rangur misskilningur

Einn brandara kann ég sem beinlíkis krefst enskukunnáttu. Hann er svona:

„Af hverju er sexan svona hrædd við sjöuna?“

-„ Because 7 8 9“.

Aumlegur útúrsnúningur, kynni einhver að segja. En snýst ekki lífið um eintóman útúrsnúning. Hvað er t.d. pólitíkin annað? Allir vilja gera vel. Það verðum við eiginlega að álíta. Ekki síður pólitískir andstæðingar en aðrir. Auðvitað hugsar fólk eftir mismunandi brautum. En getur það nokkuð að því gert? Hvernig á að láta alla taka eins við upplýsingum. Um það snýst lífið sjálft. Og ekki síður vísindin. Stærðfræðin segir okkur að mínus sinnum mínus sé samasem plús. Er þá rangur misskilningur réttur skilningur?

Það á víst að grafa lík Salvadors Dalis upp til að ganga úr skugga um hvort einhver kona sé dóttir hans. Litla (Ja, eða talsverða) athygli vakti á sínum tíma þegar lík Bobby Fischers var grafið upp hér á Íslandi í svipuðu skyni. Hvergi er friður fyrir þessum dómstólum. Ættum við ekki að geta fengið að vera í friði eftir dauðann? Hingað til hafa dómstólar látið sér nægja það sem skilið er eftir. Nú er það ekki nóg.

Eiginlega er ekkert fréttir nútildags nema hægt sé að sýna nýteknar myndir af því. Helst þurfa það reyndar að vera hreyfimyndir. Sem einu sinni voru kallaðar kvikmyndir. Nú eru það videómyndir. Fátt er fyndnara en „Fyndnar fjölskyldumyndir“. Hægt er að breyta ljósmyndum og ljúga með þeim ekki síður en með orðum. Kannski hafa það fáir ennþá á valdi sínu að breyta kvikmyndum.

Satt og logið sitt er hvað
sönnu er best að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar allir ljúga?

Þessi gamli húsgangur er því miður ekki eftir mig, en hefur mikilsverðan boðskap að flytja.

Næsta hrun kemur áður en langt um líður. Eins gott að eiga ekki mikið af peningum þá. Betra er að eyða þeim meðan hægt er. Ekki er nauðsynlegt að fara í Costco til að eyða peningum. Vel má gera það annars staðar. T.d. á ferðalögum. En þá verður maður að treysta því að hrunið komi ekki akkúrat þegar það ætti ekki að koma. Næstum öllum kemur saman um að KRÓNAN okkar margfræga sé orðin einskonar myllusteinn um hálsinn á okkur. Þegar henni verður hent og annar gjaldmiðill tekinn upp er sennilega farið að styttast í hrunið. Eiginlega má kenna henni um síðasta hrun, ef endilega þarf að kenna einhverjum um það. Svo eru það útrásarvíkingarnir. Margt gerðu þeir okkur hinum til bölvunar. Kannski var það ekki ætlunin en svona fór um sjóferð þá og fer sennilega eins með næstu.

Sé að Hrannar Baldursson er búinn að gefa út 3 rafbækur á ensku hjá Amazon. Mér finnst þær heldur dýrar og fékk mér bara kynningu á þeim. Hún er ókeypis. Kannski ég hafi bara samband við Hrannar og spyrji hann útí þetta. Einu sinni vildi Benni endilega hjálpa mér við svona útgáfu og satt er það að eitt af því sem ég á eftir að gera er að gefa út bók. Sennilega verður það samt ekki metsölubók. Hægt er að sjá hve margar bækur á íslensku hafa verið gefnar út hjá Amazon. Þær eru orðnar um 1100. Meðan ókeypis bækur þar eru um 80 þúsund og bækur alls nærri 5 milljónir held ég að ekki sé um nein uppgrip að ræða þar.

Einhver mynd.IMG 1589


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Þú ferð ekki alveg rétt með “húsganginn“, sem er eftir Pál Ólafsson og er svona:

Satt og logið sitt er hvað
sönnu er best að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar flestir ljúga?

Daníel Sigurðsson, 27.6.2017 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband