2616 - Endurtekið efni - og þó

Nei, ég er eiginlega ekkert hættur að blogga, þó góða veðrið að undanförnu hafi truflað mig dálítið. Samt er fjandi langt síðan ég hef bloggað. Verð víst að bæta úr því þó ég hafi svosem ekkert að segja.

Af hverju eru allir svona uppteknir af fésbókinni? Mér finnst hún hundleiðinleg. Samt á maður erfitt með að slíta sig alveg frá henni. Fréttaflutningur allskonar er þar á víð og dreif. Og hann er ekkert endilega að finna í Fréttablaðinu. Samt fletti ég því flesta daga og skoða líka fréttir sem tölvan vill halda að mér. Mest af því sem þar er að finna (altsvo í Fréttablaðinu og tölvunni.) er óttalega neikvætt og mannskemmandi. Pólitíkin er líka leiðinleg. Fréttir eru flestar óttalega neikvæðar. Af hverju ætli maður sé sífellt að ergja sig á því að fylgjast með þeim? Þeir sem fylgjast sem mest með blessaðri fésbókinni og skrifa jafnvel örstuttar athugasemdir þar, virðast aðallega gera það til þess að fóðra ættingja og vini á persónulegum upplýsingum eða til að hneykslast á stjórnvöldum og þó sérstaklega ríkisstjórninni.

Ríkisstjórnir koma og fara. Þýðingarlaust er að hneykslast á þeim. Kannski ráðherrar vilji oftast gera vel. Auðvitað vilja þeir líka græða á góðseminni. En skelfing eru þeim mislagðar hendur, ef dæma á eftir öllum þeim sérfræðingum sem um störf þeirra fjalla. Oft virðist fólk bara þurfa aðra hlið mála til að taka endanlega afstöðu. Svo eru líka sumir, eins og ég t.d., sem eru ákaflega ákvarðanafælnir. Kannski er það ekkert betra.

Skemmtilegust eru börnin og barnabörnin. Ánægju þeirra (a.m.k. barnabarnanna meðan þau eru ung) getur maður hæglega tekið eignarnámi, ef svo má segja. Eiginlega er ekki lifandi nema fyrir ánægjuna. Hvernig verður hún til? Með því að eyða sem mestum peningum? Kannski? Að lifa sem lengst? Hugsanlega. Af hverju skrifa ég kannski með þessum hætti? Veit það ekki. Minnir að mér hafi verið kennt á sínum tíma að skrifa ætti það með e-i í endann. Hugsunin fer semsagt í sífellda hringi. Nú er ég farinn að hugsa um alltannað.

Kannski íslenskan eigi enga framtíð fyrir sér. Digitally virðist enskan sífellt vera að vinna á. Í tölvuleikjum hverskonar og appalega séð er hún allsráðandi. Hlutlaust séð er íslenskan ekkert merkilegri en önnur tungumál. Samt kann maður ekki sambærileg skil á neinu öðru máli. Hugsanlega komast þær kyslóðir sem eiga eftir að vaxa upp á Íslandi ekki hjá því að kunna fullkomin skil á ensku.

Er þetta bara ekki að verða nokkuð gott hjá mér? Að minnsta kosti nenni ég helst ekki að skrifa meir og segi hér amen eftir efninu einsog séra Sigvaldi forðum.

IMG 1597


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband