2614 - 50.000 x 4,800

Það er dálítið óþægilegt að vita að vel yfir 400 manns séu að lesa bloggin manns, eins og var í gær. Vinsamlega hættið þessum óskunda. Mér finnst alveg nóg að svona 30 til 50 manns séu að þessum fjára. Auðvitað eru þetta öfugmæli. Mér finnst þvert á móti mjög svo ánægjulegt að sem flestir lesi það sem ég skrifa. Af hverju þeir eru svona margir um þessar mundir hef ég ekki hugmynd um. Kannski er það fremur fátt sem heillar á Hvítasunnunni. Veðrið er samt alveg ágætt. Einnig tókst mér t.d. alveg í síðasta bloggi að komast hjá því að fjölyrða um Trump og sömuleiðis minntist ég ekkert á hryðjuverkin í London. Um þau má þó að sjálfsögðu margt segja.

Einhvers staðar sá ég því haldið fram að forgjöf sú sem Costco fékk, í æði því sem nú stendur yfir hér á landi, væri fimmtíu þúsund sinnum fjögur þúsund og átta hundruð. Það er samasem tvö hundruð og fjörutíu milljónir reiknast mér til. Veit þó ekki hvort þeir hafi selt 50 þúsund meðlimakort. Hugsanlega hefur það kostað þá meira en þetta að koma hingað enda held ég að þetta sé einskonar tilraunastarfsemi hjá þeim og að jafnvel sé ekki gert ráð fyrir að græða neitt á þessu. Heildaráhrif alls þessa þegar um fer að hægjast held ég að verði þau að íslenskar matvörukeðjur vandi sig aðeins meira, en þær virðast hafa gert fram að þessu. Einnig gætu Bónus og Krónan misst að einhverju marki viðskipti við smærri verslanir, mötuneyti og jafnvel fleiri.

Samkvæmt langri og ítarlegri frétt einhversstaðar tókst þeim í Costco að selja gíraffann sinn fræga þó líklega hafi ekki verið gert ráð fyrir að svo vitlaus Íslendingur væri til. Mjög margir skrifa athugasemd við þessa frétt og vilja greinilega vera taldir með þegar um þetta er rætt.

Ef ég skrifa ekkert um hryðjuverkin í London og Manchester gætu einhverjir haldið að mér stæði nákvæmlega á sama um þau. Svo er þó ekki. Hinsvegar finnst mér að nú þegar hafi svo mikið verið fjallað um þau að ekki sé á bætandi. Á sínum tíma óttuðust margir að Saddam Hússein gæti fundið upp á einhverju svona. Það reyndist ekki vera og ég sé ekkert sem bendir til þess að hryðjuverkamönnunum takist ætlunarverk sitt að þessu sinni. Með áherslu sinni á trúarbrögð í þessu sambandi sýnir öfgahægrið þó svolítil merki um að þetta gæti tekist. Satt að segja má alltaf búast við einhverju svona löguðu þegar stríðsaðili sér framá vonlausa stöðu.

Nú má segja að heldur fari fækkandi möguleikum Trumpista því ekki er annað að sjá en bilun sé að koma upp í þingliði repúblikanaflokksins. Hægristefna Trumps er þó allsekki eins óvinsæl í Bandaríkjunum og raunin virðist vera að sé í Evrópu. Áhugi minn á Bandarískum stjórnmálum hefur þó síst minnkað. Margt er þar mjög merkilegt. Samt held ég að Trump muni ekki reynast farsæll forseti. Til þess er hann alltof ógætinn og þar að auki notar hann Twitter í óhófi, sem bæði getur reyndar verið blessun og bölvun. Allavega er enginn vafi á því að hann bætir ekki ástandið í heiminum. Hugsanlega er einangrunarstefna hans upphafið á endalokum þúsundáraríkisins bandaríska.

IMG 1600Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband