2613 - Costco og IKEA

Í gær fórum við hjónin bílandi bæði í Costco og IKEA. Eiginlega var það útaf fyrir sig alveg ágætis dagsverk, enda hryllingurinn, bílafjöldinn og stympingarnar með ólíkindum. Ekki keyptum við mikið í þessari ferð en eftir hana er mér enn ljósara en áður hvers vegna mér líður að mörgu leyti betur hér á Akranesi en fyrir sunnan.

Hraðinn og djöfulgangurinn, túristarnir, umferðin, troðingarnir og lætin á miklu verr við mig en rólegheitin og afslöppunin hér í fásinninu. Kannski er umferðin minni í íbúðarhverfum í borginni, en samt er ófriðurinn og æsingurinn aldrei langt undan. Þakka máttarvöldunum fyrir að þurfa ekki að fara daglega í borg óttans.

Samt er það ekkert skemmtilegt að vera orðinn næstum óþarfur fyrir aldurs sakir. Kannski er það þessvegna meðal annars sem ég er að þessu bloggi. Á margan hátt finnst mér að með því sé ég að leggja einnhvað til málanna. Hef ekki nennt að setja mig nægilega vel inní það sem er að gerast á fésbókinni, enda finnst mér hún á margan hátt endurspegla borg óttans.

Held að þetta með „borg óttans“ hafi ég fengið frá Hörpu Hreinsdóttur eins og fleira gott í sambandi við bloggið. Hún er nefnilega gift náfrænda mínum og ég fylgist að sjálfsögðu með athöfnum þeirrar fjölskyldu á fésbók og annars staðar á netinu.

Annars er netið á góðri leið með að verða ótrúlega stór þáttur í lífi margra. Öll samskipti fólks þurfa nútildags að taka mið af því sem gerist þar. Fyrir okkur gamalmennin þýðir lítið að óskapast útaf því. Þetta er bara staðreynd.

Gera má einnig ráð fyrir því að margt breytist við þetta. Eitt af því sem er fyrir tilverknað netsins er að breytast mikið er málið. Ýmislegt í því sambandi er okkur gamla fólkinu kært. Málfar okkar er sjálfsagt hálfóskiljanlegt unglingum dagsins í dag.

Fyrir sakir tölvubyltingarinnar er enskan sífellt að sækja á. Mörgum virðist fremur ósýnt um að spyrna við fótum í því sambandi. Við því er lítið að gera. Ef við eigum að komast sæmilega af í heimsþorpinu verðum við að skilja fleira en bara íslenskuna. Kannski verður hún með tímanum einskonar sparimál.

IMG 1602Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband