2603 - Munnapar

Var ekki allt betra í gamla daga? Eiginlega er ég ekki þeirrar skoðunar þó ég sé kominn á efri ár. Þetta sífellda nöldur útí allt og alla er að drepa allar framfarir. Samt finnst mér að sú endurbót sem orðið hefur skili sér fremur illa í kosningum. Ekki finnst mér samt undarlegt þó fylgi Sjálfstæðisflokksins sé talsvert mikið. Spurningin er bara hvað við köllum mikið. Að sumu leyti er hann sá flokkur sem leitast mest við að aðlaga sig skoðunum fjöldans. Það gera hinir flokkarnir miklu síður. Þeir reyna að aðlaga fjöldann að sínum skoðunum. T.d. er ég viss um að Bjarni Benediktsson er í hjarta sínu ESB-sinni þó ekki sé vert að flíka því að sinni. Sömuleiðis er Katrín Jakobsdóttir í hjarta sínu andvíg kommúnisma, a.m.k. eins og hann birtist okkur í Sovétríkjunum sálugu. Vinstri grænir hafa þó aldrei getað þvegið að fullu af sér kommúnistastimpilinn.

Alþjóðlegi hurðarhúnsdagurinn var einhverntíma í gær. Sennilega um þrjúleytið GMT. Dagarnir í árinu eru nefnilega orðnir allof fáir. Hugsanlega verður að fjölga þeim verulega. Verðbólgan sem víðast hvar grasserar hefur nefnilega ekki ennþá náð til dagatalsins. Sennilega verður skipuð nefnd (eða starfshópur) fljótlega til að rannsaka þetta mál út í hörgul.

Kvikmyndin um skagfirsku mótmælasveitina (söngsveitina) sýndi svo ekki verður um villst að máttur hreyfimyndarinnar getur verið mikill þegar um áróðursgildi er að ræða. Margt er hægt að segja um klippingar, props, tímalínu, sviðsmyndir og þess háttar í myndinni og þó forstjóri Landsnets reyndi að malda eitthvað í móinn í Kastljósi daginn eftir var það alveg máttlaust í samanburðinum. Orð, greinar og þess háttar á fésbókinni og víðar falla líka alveg í skuggann. Það jákvæðasta sem hægt er að segja um mótmælin er að þau hafa tafið allar framkvæmdir og stjórnendur Landsnet virðast vera farnir að hugsa aðeins öðruvísi en áður. Fjandskapurinn við Akureyri og Akureyringa getur tekið á sig ýmsar myndir.

Reiðarekskenningin. Sumir eru fyrir að láta allt reka á reiðanum. Treysta að þeim leggist eitthvað til áður en í mikið óefni er komið. Viðurkenni alveg að ég er hallur undir þetta sjónarmið. Reyni samt að reagera a.m.k. stundum í tæka tíð. Skylt þessu er hinn svokallaði valkvíði. Það að geta helst ekki tekið neinar ákvarðanir meðan hugsanlegt er að eitthvað verði til þess að ákvörðunin taki sig sjálf eða einhverjir aðrir geri það. Stundum er ekki nóg að allir aðrir bíði eftir að þessi ákvörðun sé tekin það er bara ómögulegt að taka hana. Þessi veikleiki getur verið á hvaða sviði sem er og fræðimönnum kemur sennilega fátt á óvart í því efni.

Var áðan að hlusta á umræður á alþingi. Heyrðist einhver vera að tala um mannapa. Kannski var það vitleysa. Í framhaldi af því fór ég að hugsa um Sult eftir Knud Hamsun. Þá bók las ég fyrir margt löngu. Söguhetjan þar fann upp nýtt orð. Orðið var „kúbúá“. Þá átti hann bara eftir að finna merkinguna. Man ekki hver hún var. Kannski kom það ekki fram í bókinni. Þó ég sé alls ekki að líkja sjálfum mér við Hamsun vildi svo til að hugsun mín fór afturábak og í staðinn fyrir mannapi fann ég upp nýtt orð og merkinguna líka. Þetta er orðið „munnapi“ reyndar veit ég ekkert um hvort það hefur komið fram áður og hvað merkinguna snertir ætla ég að sleppa því að minnast á hana hér.

IMG 1661Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband