2557 - Hæ, tröllum á meðan við tórum

Fyrst þau hjá kjararáði eru svona flink í prósentureikningi væri þá ekki réttast að láta þau reikna prósentur ofan á ellilaunin og jafnvel lífeyrisgreiðslurnar úr lífeyrissjóðunum líka. Auðvitað er þetta hótfyndni en hvað annað getur maður gert, þegar ræningjar ráða öllu hér á landi. Það er ekki nóg með að þeir ráði launum okkar heldur eiga þeir víst líka að ráða því hvort við lifum eða deyjum. Ég skal útskýra þetta svolítið þó ég sé enginn Jóhannes útskýrari. Kjararáð ræður hve há laun alþingismenn og ráðherrar hafa og aðrar stéttir fara eftir því. Þessi hávaði í þingmönnum útaf því að launin þeirra séu of há er eins og hvert annað mjálm. Þeir munu taka við þessum launum með græðgisglampa í augum þegar þar að kemur og kannski eru þeir búnir að því. Eftir því sem þingmenn og aðrir menn fá hærra kaup munu þeir gera minna. Það vita allir. Þar með munu þeir ekki nenna að lagfæra heilbrigðiskerfið. Sannið til.

Vitanlega er ég svartsýnn. Hvernig er annað hægt? Hver maður sem ekki verður sósíalisti á því að kynna sér stjórnmál er heimskur. Þessa visku hafa margir eignað Georg Bernhard Shaw og kannski er það rétt. Fullyrðingin er einnig að líkindum rétt. Þó er ekki þar með sagt að þörf sé á því að eyða öllu lífinu í fýlu. Sumt getur alveg verið skemmtilegt þó annað sé leiðinlegt og sorglegt. Uppgerðarkæti er þó lítils virði. Það sem helst getur gert okkur, sem komin erum á grafarbakkann eða svotil, fært að líta glaðan dag er sú fullvissa að mannkynið sé að fara til fjandans. Fjölmiðlarnir mæla þessa glórulausu svarsýni líka upp í okkur. Veðurfarið á að vera að versna. Flóttamennirnir fremja sífellt fleiri glæpi. Heimshlýnunin og mengunin á að ganga af mannkyninu dauðu og ofan á allt saman kann unga kynslóðin ekki einu sinni að lesa. Hvar endar þetta eiginlega? Smartsímarnir fara bráðum að tala saman sín á milli án þess að mannshöndin eða mannsvitið kom þar nokkurns staðar nærri.

Nei, það eiga allir að vera jákvæðir? Jafnvel þó jákvæðnin gangi af mönnum dauðum. Helst eiga allir að vera talsvert skemmtilegir líka. Veit ekki hvernig þetta getur farið saman í brjáluðum heimi. Annars er um að gera að skemmta sér undir drep, því annars gæti það orðið of seint. Vörum okkur samt svolítið á jákvæðinni. Það er einmitt hún sem gerir starf (já,  þeir starfa stundum) ræningjanna og ríkisstjórnanna auðveldara. Meðvirknin er alltumlykjandi. Annars er ég sífellt að sjá fleiri og fleiri sannanir fyrir því að lífið sé allt saman einn stórkostlegur brandari.

Það er ekki bara hér á Íslandi sem gamalt fólk er hundelt og rænt. Var einmitt að lesa grein í áreiðanlegum fjölmiðli frá Bandaríkjunum þar sem frá því er greint að yfirvöld í því landi taki stóran hluta af ellistyrk fjölda fólks og kalli það endurgreiðslu á námslánum. Þar í landi geta yfirvöld ekki ofsótt ættingjana eftir lát viðkomandi og kalla því það sem tekið er oftast nær vexti og kostnað og gæta þess þannig að námslánaskuldin lækki ekki og hundelta fólk fram á grafarbakkann og afskrifa lánið þegar tekist hefur að koma því í gröfina.

„Icelandair“ skilst mér að sé alveg óskylt fyrirtækinu Flugfélagi Íslands. Auglýsingadeild nefnds fyrirtækis (Altsvo Icelandair) virðist af einhverjum illskiljanlegur ástæðum hafa komist að þeirri niðurstöðu að því lengri og leiðinlegri auglýsingar sem þeir birta því betri séu þær. Eflaust eru þær það frá sjónarmiði RUV eða annarra birtenda, en ekki er víst að sú sé grunnhugsunin. Kannski halda menn hjá Iclandair að því oftar sem þeir láta birta þessa vitleysu því fleiri vilji flúga með þeim. Ekki er líklegt að svo sé.

IMG 2481Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Myndin er í ákaflega góðu samræmi við pistilinn, Sæmundur.

Gleðileg jól!

Þorsteinn Siglaugsson, 21.12.2016 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband