12.12.2016 | 08:36
2554 - Falskar fréttir og fleira
Unga fólkið í dag lifir langt umfram efni. Það situr á kaffihúsum og veitingastöðum og neytir matar og drykkjar á milli tíma í skólum. Fer á milli í einkabílum, klæðist nýjustu tísku og neytir eins og fullorðið fólk með góðar tekjur. Vorkenni ekki þeim sem kvarta undan slæmum fjárhag. Þau ættu að fara með nesti í skólann í strætó og almennt velta hverri krónu á milli handanna. Þá fyrst færi ég að hlusta af alvöru á kvartanir þeirra.
Þessi klausa er úr fréttabréfinu hans Eiríks Jónssonar, sem staðsett er á fésbókinni og ég hlýt einhverntíma að hafa slysast til gerast áskrifandi að. Er unga fólkið virkilega svona? Ég held ekki. Kannski eru einhverjir það og sumir þeirra eru eflaust ungir að árum. Þó ég hafi ekki haft döngun í mér til að hætta að fá þetta árans fréttabréf, er því ekki að leyna að fundvís á ýmsar fréttir er hann Eiríkur og hefur ágætis sambönd. Eyðileggur þó kannski eitthvað fyrir öðrum slúðurblöðum með því að hafa þetta ókeypis.
Kári er beittur. Það má hann eiga. Nú tekur hann Bjarna Benediktsson og alþingi íslendinga til bæna og lætur hvína í. Það hefur verið margsýnt framá það að mikill meirihluti Íslendinga vill gjarnan láta heilbrigðiskerfið vera í langfyrsta sætinu á forgangslistanum þegar kemur að því að skipta þeim peningum milli manna, sem Bjarni sjálfur segir og gefur í skyn með ýmsum hætti að séu heilmiklir. Af hverju í fjandanum gerir maðurinn það ekki?
Skelfing eru þessar Ólafíur orðnar margar. Maður fylgist varla með þessu öllu saman. Ólafía er golfsnillingurinn. Tölum ekki meira um hana. Ólafía er annar húðflúrarinn sem var sprengdur í loft upp af samkeppnisfyrirtækjum eftir því sem einhverjir sögðu. Og sá sem fór að gráta útaf því að hann vann ekki á Olympíuleikunum ætlaði endilega að gera það fyrir Ólafíu sína. Eða það minnir mig a.m.k. Ekki er nú frumleikanum fyrir að fara hjá landanum. Svona er þetta bara. Bið allar Ólafíur landsins afsökunar á þessu tuði.
Falskar fréttir eru mörgum til ama. Okkur fullorðna fólkinu hættir til að álíta alla sem hafa ekki kosningarétt einn hóp. Börnin sjálf gera skýran greinarmun á börnum, smábörnum, krökkum, unglingum og táningum. Spyrjið bara kennara. Þessi munur er ekki alltaf eins og það getur valdið vissum vandræðum. Ég nefndi líka falskar fréttir hérna fyrr í þessari málsgrein. Já, þetta tengist. Kennarar eiga í vaxandi erfiðleikum með að kenna ungu fólki og börnum að skilja muninn á fölskum fréttum og sönnum. Allt fer þetta eftir uppruna þeirra og trausti viðkomandi á uppsprettunni. Okkur finnst auðvelt að gera greinarmun á Baggalútsfréttum og raunverulegum fréttum. En kannski finnst ekki öllum það. Og þessar fölsku fréttir eru ekki alltaf vitund fyndnar. Beinlínis hræðilegar stundum. Og það er vel hugsanlegt að þær hafi áhrif á einhverja.
Vissulega er það spurning hvort við verðum bara þrælar þeirra uppfinninga í félagslegum miðlum sem tröllríða nú hinum vestræna heimi eða hvort okkur tekst að ná valdi á þeim. Internetið og snjallsímarnir eru langt komnir með að gjörbreyta heiminum. Auðvitað ógnuðu Presley og Bítlarnir öllum gildum á sínum tíma. En er ekki hætta á að Netið, símarnir og tölvuleikirnir geri það núna? Tölvubyltingin sem nú á sér stað er hugsanlega gagntækari en iðnbyltingin svonefnda eða aðrar smábyltingar sem dunið hafa á okkur á undaförnum öldum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.