2537 - Spilling

IMG 2908Finnst endilega að ég hafi heyrt áðan í útvarpinu að Elizabeth II hafi verið krýnd árið 1947. Það held ég að sé ekki rétt. „Spurðu bara Gúgla.“ Mundi Tinna segja af því að hún er orðin sjö ára. Ég nenni ekki slíku, því mér finnst meira gaman að skrifa en að semja spurningar á ensku.

Það fyrsta sem ég man eftir úr fréttum var um Geysis-slysið. Það held ég að hafi átt sér stað árið 1950. Líka man ég eftir að það gerðist nokkurn vegin um sama leyti að menn komust í fyrsta skipti á Everest-tind og að Elizabeth II var krýnd með pompi og pragt. Það held ég að hafi skeð 1952 eða 1953. Kannski hef ég frétt af því seinna. Allavega held ég að þetta hafi skeð sama árið. Annars er ég enginn prófessor í sagnfræði. Og Gúgla læt ég yfirleitt í friði nema um brennandi spurningar sé að ræða. Þar að auki hef ég engan sérstakan áhuga á ártölum. Það má svosem líka alveg prófa að hafa spurningarnar til Gúgla á íslensku.

Auðvitað er meira en að segja það að ákæra forseta Bandaríkjanna, en samt má búast við því. Kannski verður Donald Trump ákærður eins og Richard Nixon og Bill Clinton. Ekki er þó vitað fyrir hvað. Kannski fyrir Trump University. Trump er það óútreiknalegur að repúblikanar í þinginu gætu ákveðið að losa sig við hann. Hver tæki þá við? Nú auðvitað varaforsetinn Mike Pence, sem er fyrrverandi ríkisstjóri í Indíana og margreyndur stjórnmálamaður, sem Trump er ekki. Líklega mundi hann láta það verða sitt fyrsta verk, eins og Gerald Ford, að náða Trump. Þessar spekúlasjónir eru með öllu án ábyrgðar.

Leiða má líkur að því að Trump muni uppskera nokkuð harða gagnrýni fyrir að hafa gert Steve Bannon að sínum helsta ráðgjafa. Ekki tók Obama forseti undir þær gagnrýnisraddir á sínum síðasta blaðamannafundi sem haldinn var í dag (mánudag). Þó ég sé ekki vanur að fylgjast með beinum pólitískum útsendingum í öðrum löndum gerði ég undantekningu að þessu sinni. Mesta athygli mína vakti samanburður hans á viðbragshraða þeim sem nú er nauðsynlegur við miklum tíðindum. Hann sagði að Kennedy forseti hefði haft 2 vikur til að bregðast við Svínaflóaárásinni. Fyrr hefði hún ekki verið á allra vitorði. Nú mundi slíkur hægagangur ekki vera liðinn.

Spekúlera má í ríkisstjórnarmyndun hér á Íslandi núna og víða er það gert. Mér finnst Bjarni hafa tekið sér fulllangan tíma, því enn er sagt að ekki sé fullvíst að þetta takist. Vissulega er um margt að semja og oft hefur það tekið langan tíma að ganga frá öllum lausum endum. Nú má hinsvegar segja að liggi verulega á því jólin og áramótin nálgast óðfluga. Eða ætti ég kannski að segja eins og óð fluga.

Sennilega minnist enginn þeirra flokka sem nú ræða ríkisstjórnarsamstarf á spillingarmál frekar en þau séu ekki til. Einhver útlend samtök hafa haldið því fram að spilling sé lítil á Íslandi. Almenningur veit þó betur. Spilling, frændhygli, einkavinavæðing o.s.frv. er landlæg hér á Íslandi. Tilraunir til að minnka hana mundu áreiðanlega skila sér í fleiri atkvæðum. Þeir hægri sinnuðu flokkar sem nú ræða stjórnarmyndun eru samt ekki líklegir til að ráðast gegn henni.

Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband