22.10.2016 | 10:12
2522 - Er krónan ónýt eða ekki?
Segja má að flokkarnir sem bjóða fram í komandi alþingiskosningum séu bæði í fyrstu og annarri deild ef litið er á skoðanakannanir. Fjórflokkurinn gamli og slitni er í 1. deild allur nema Samfylkingin. Sá flokkur er sennilega á leiðinni út. Aftur á móti eru Píratar líklega að koma í staðinn. Hin framboðin sýnist mér að séu öll í annarri og jafnvel sum í þriðju deild. Einhverjir þurfa jafnvel að keppa utandeildar í næstu kosningum. Sumir eru að spá Framsókn falli en það held ég að sé óskhyggja. Einhver litlu framboðanna koma sennilega manni eða mönnum að. Öruggt er að enginn flokkur fær meirihluta. Spurningin er því hvort næsta ríkisstjórn verði tveggja, þriggja eða jafnvel fjögurra flokka stjórn. Framboðin eru vel á annan tuginn sýnist mér, svo hugsanlegt er jafnvel að fleiri en 4 flokkar taki þátt í næstu ríkisstjórn.
Annars eru þessar blessuðu kosningar að valda því að afar lítið er af bitastæðu efni í fjölmiðlunum þessa dagana. Ef einhverjum dettur eitthvað snjallt í hug er best að þegja um það þangað til í næsta mánuði.
Man vel eftir því, að þegar Obama var fyrst kjörinn forseti, var það eitthvað í fréttum. Ég sagði þá meðal annars við húsvörðinn hjá MS (Já, Mjólkursamsölunni) að frammistaða Obamas, minnti mig að sumu leyti á John F. Kennedy, sem hafði það helst á móti sér, þegar hann var kjörinn, að hann væri katólskur. Húsvörðurinn fussaði þá mikið, enda höfðaði Obama einkum til unga fólksins. Einn af þeim leiðtogum þeirra, sem héldu því þá fram, eins og eftirminnilegt er, að hann yrði að sýna fæðingarvottorð sitt til að sanna að hann væri ekki fæddur utan Bandaríkjanna var einmitt sá sami Donald Trump, sem núna sækist eftir því að verða forseti Bandaríkjanna. Af mörgum ástæðum eru forsetakosningarnar í Bandaríkjunum meira í fréttum að þessu sinni en oftast áður, enda er þetta í fyrsta sinn sem kona er frambjóðandi annars af stóru flokkunum þar.
Hvernig í ósköpunum ætli standi á því að ég get varla um annað skrifað en stjórnmál. Auðvitað hef ég áhuga á þeim. Þau er samt óttalega leiðinleg í grunninn. Samt þarf maður helst að fylgjast svolítið með þeim því óneitanlega eru þau um margt athyglisverð. Á sínum tíma féllst ég á að styðja Bjarna systurson minn í prófkjörsslag við Hjálmar einhvern Árnason og er síðan að ég held skráður í Framsóknarflokkinn og fæ ennþá tölvupóst öðru hvoru og allra mest í aðdraganda kosninga. Þann flokk hef ég þó ekki kosið a.m.k. síðastliðin 50 ár eða svo. Fékk meira að segja eitt sinn tilboð um að sitja eitthvert þing þeirra. Slík voru vandræðin.
Eiginlega er stefna allra flokka í komandi kosningum alveg eins. Allir vilja eyða peningum, aðeins í svolítið breytilega hluti og eftir mismunandi aðferðum. Aðalmarkmiðið er að rugla fólk sem mest í ríminu. Það sem skilur á milli er krónan. Sumir segja að hún sé allra meina bót. Aðrir að hún sé upphaf alls ills. Ég er á móti krónunni. Jafnvel litlir og vesælir spákaupmenn geta farið með hana eins og þeim sýnist ef markaðurinn svokallaði stjórnar alfarið gengisskráningunni. Þessvegna verðum við að hafa hana á bakvið gjaldeyrishöft. Það sem er gott við hana er að hægt er að hækka og lækka verðlag og laun án þess að mikið verði vart við það, nema að krónan hríðfellur í verði og verðbólga vex. Stjórnvöld geta með gengisskráningu stjórnað því sem þau vilja. Þ.e.a.s. kaupgjaldi og verðlagi. Þannig hefur það verið og þannig mun það verða. Gjaldeyrishöftin eru ekkert að fara og engir fjársterkir erlendir aðilar vilja festa fé sitt bakvið þau, nema með allskyns undantekningum og sérreglum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.