19.10.2016 | 16:40
2520 - Útskýring - Hrútskýring
Kemur fyrir að ég stúdera afmælin á fésbókinni. Undarlegt hvað allir sem ég þekki eru að eldast mikið. Þekki orðið fáa undir fimmtugu. Hvernig ætli standi á því?
Útskýring, hrútskýring. Undanfarið hefur borið á tilraunum til að gera hrútskýringu að feminísku orði. Það finnst mér ekki rétt. Þegar ég heyrði fyrst talað um Jóhannes útskýrara þótti mér það fyndið. Þykir það jafnvel enn. Hrútskýring finnst mér aftur á móti eiga að vera hrútleiðinleg og langdregin útskýring á sjálfsögðum hlut. Þetta er nú meiri hrútskýringin. En af hverju skyldi vera talað um að eitthvað sé hrútleiðinlegt. Hrútar eru ekkert leiðinlegir. Annars er vinsælt og þekkt að nota húsdýranöfn sem áhersluauka.
Nú er 18. október og farið að birta. Nýkominn úr morgungöngunni sem þó er ekki alveg daglegur viðburður hjá mér, en næstum því. Aðalspurningin á þessum árstíma er hvort maður á að bíða eftir birtingunni eða ekki. Hef fremur beðið eftir henni að undanförnu, en ekki núna samt.
Á margan hátt gerir fundarboð píratanna kosningabaráttuna ólíka því sem verið hefur. Flokkarnir eiga í mestu vandræðum með að ákveða hvernig svara skuli þessu boði. Þeir sem helst ekki vilja þekkjast það eiga líka í svolitlum vandræðum með að finna réttu afsakanirnar. Auðvitað er einfaldast að segja bara að þeir vildu frekar að þetta yrði gert öðruvísi og sennilega gera flestir það. Forystumenn Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna (kvenkyns allir held ég) minnir mig að hafi verið búnir að lýsa því yfir að þeir mundu ekki vilja starfa með Sjálfstæðisflokknum á næsta kjörtímabili. Ef hægt væri að láta kosningabaráttuna einkum snúast um það hver vilji starfa með hverjum væri sennilega mikið unnið. Að líkindum er það aðalmarkmið Pírata. Auk þess eru þeir víst að tapa fylgi núna. Loforðarulla flokkanna er hvort eð er einskis virði.
Þó hringt hafi verið í mig frá Fréttablaðinu í gærkvöldi útaf einhverri skoðanakönnun sem ég nennti ekki að svara er ég nokkurnvegin búinn að ákveða hvað ég muni kjósa. Líklega verða Píratarnir fyrir valinu eins og minnir að ég hafi verið búinn að segja fyrr. Skoðanakannanir benda til þess að Píratar og Sjálfstæðisflokkur verði ráðandi öfl að kosningunum loknum og líklegt er að Vinstri grænir séu á einhverri siglingu. Annars virðist mér óráðið með öllu hverskonar stjórn við fáum eftir kosningar.
Annars eru það kosningarnar í Bandaríkjunum sem vekja hjá mér mestan áhuga. Trump heldur því fram núna að mikið sé um kosningasvindl þar. Þessu er ég allsekki sammála. Auðvitað er eitthvað um svindl í svona stóru landi (mörgum löndum), en ég efast um að það hafi nokkurntíma haft mikil áhrif. Að vísu finnst mér það ljóður á þeirra ráði að nauðsynlegt sé að skrá sig fyrirfram til að geta tekið þátt í kosningum. En ég hef alveg fyrirgefið það vegna þess að þeir hafa ekki þjóðskrá eins og við og geta þessvegna ekki útbúið kjörskrár á sama hátt. Þeir sem ekki vilja taka þátt í þjóðfélaginu eiga ekki að fá að kjósa. Að dauðsföll séu ekki tilkynnt, held á að sé svo sjaldgæft að hægt sé að horfa framhjá því.
Síðasta kappræðan milli forsetaframbjóðendanna verður í kvöld (miðvikudag) og sennilega er það síðasta tækifærið sem Trump fær. Mikill fjöldi áhorfenda á þær tvær kappræður sem búnar eru hefur komið mönnum á óvart og segja má að þessar forsetakosningar séu mikilvægar. Greinilegt er að ekki er hægt að ná til nærri allra með öðru en sameinuðu sjónvarpi og þessvegna geta þær haft talsverð áhrif.
Sennilega er það fyrsta alvöru haustrigningin sem er að gera okkur lífið leitt akkúrat núna. Samt er hitinn ágætur og eiginlega engin þörf að kvarta undan veðrinu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.