2519 - Enn um stjórnmál o.fl.

„Að grípa Guð í fótinn“, er að verða fyrir óvæntu happi. Áður fyrr var góðviðri það sem stundum gerir á Þorláksmessu á vetri eða næstu daga á undan kallað „fátækraþerrir“, því þá gátu þeir sem verulega fátækir voru a.m.k. verið í hreinum fötum á jólunum. Uppá engelsku var stundum talað um „Indian summer“ í svipaðri merkingu. Þetta með að grípa Guð í fótinn hefur mér alltaf þótt merkilegt spakmæli og bera vott um undarlegan hugsunarhátt. En hvað vitum við um réttan og sanngjarnan hugsunarhátt þess fólks sem víðsfjarri okkur er í tíma og rúmi?

Kosningar þær sem verða væntanlega hér í lok þessa mánaðar, gætu orðið mjög svo markverðar. Eru annars ekki allar kosningar það? Útilokað er að halda því fram að núna höfum við ekki jafnað okkur að fullu á Hruninu og þessvegna ætti að vera talsvert að marka þau kosningaúrslit sem við fáum í fangið snemma dags á sunnudaginn 30. október næstkomandi. Semsagt erfiðara að ljúga okkur full.

Mér finnst erfitt að taka afstöðu í íslenskum stjórnmálum án þess að hugsa jafnframt um stjórnmál heimsins. Mér finnst ekki hægt að gera ráð fyrir því að hugsunarháttur andstæðinganna, hvort sem um er að ræða skiptingu heimsins eða þær agnarlitlu (í heimssögulegu samhengi) væringar sem eiga sér stað hér heima, sé illur í sjálfu sér. Hann getur verið byggður á misskilningi og ýmsu öðru en illur er hann ekki. Stundum getur verið um það að ræða að of mikil áhersla sé lögð á persónulegan eða flokkslegan hagnað en illan hug í stjórnmálum kannast ég ekki við.

Þó flest af því sem Donald Trump heldur fram sé andstætt þeim hugmyndum sem ég hef get ég ekki annað en samsinnt mörgum þeirra „anti-establishment“ sjónarmiðum sem hann heldur fram. Ég get ekki varist þeirri hugsum að viðurkenndur hugsunarháttur hér á vesturlöndum sé of hallur undir peningaöfl og valdablokkir. Að gagnrýnin á hann skuli koma frá hægri er vonandi alger tilviljun og er einnig verulega andstætt mínum hugmyndum. Þessvegna hefði mér hugnast betur á margan hátt að Bernie Sanders hefði unnið Hillary Clinton í forkosningum demókrata. Aftur á móti held ég að með því hefðu sigurlíkur Trumps aukist verulega. Hugsanlega er sú skoðun mín á ófullkomleika Bandarísks almennings og kosningafyrirkomulaginu þar í landi misskilningur hinn mesti.

Veit ósköp vel að margir hafa haldið þessu sama fram (varðandi Trump og Sanders), en mér finnst oft vanta útskýringar með því. Auðvitað get ég ekki útskýrt þetta mál nema eftir mínum hugmyndum og hvaðan eru þær komnar? Ekkert verður til úr engu. Þessar skoðanir mínar hljóta að hafa orðið til við að fylgjast með fjölmiðlun í gegnum árin. Sú breyting sem nú er að verða á allri fjölmiðlun er einkum sú að allir (jafnvel ég) geta látið ljós sitt skína í einhverri mynd.

IMG 3288Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband