2518 - Enn um tíkina miklu

Á ísa köldu landi (öðru nafni Íslandi) erum við bólusett ( í óeiginlegri merkingu) gegn öllum alvarlegum skorti, svosem eins og hungri og klæðleysi. En gegn leiðindum og eignaleysi er engin bólusetning til. Helst að það sé kommúnisminn, en hann hefur sýnt sig að vera misskilningur hinn mesti. Þá er um að ræða hrærigraut af kommúnisma og kapítalisma og hann hefur reynst einna best. Verst hvað hann er til í mörgum útgáfum. Ekki veit ég hvaða útgáfa hentar okkur best. Skandinavíska útgáfan virðist á margan hátt hafa tekist vel, en kannski er aðdáun mín á þeirri útgáfu mest tilkomin vegna þess að ég þekki hana betur en flestar aðrar. Af einhverjum ástæðum virðist Evrópa (a.m.k. Vestur-Evrópa) vera meira fyrir bólusetningar af þessu tagi en Bandaríki Norður-Ameríku. Þó er ég ekki frá því að þau stefni þangað nú í seinni tíð.

Ævinlega þegar pólitíkusar hér á Íslandi ræða um og taka ákvarðanir um kjördæmaskipun, atkvæðajöfnun og þessháttar eru það hagsmundir flokkanna sem ráða mestu. Kannski er það alltaf svo. Í öðrum efnum er því þó leynt betur.

Kannski er með einhverjum rétti hægt að kalla þessa (bólusetningar) stefnu vinstri og hægri. Á ýmsum öðrum sviðum er ekki að sjá að þessar viðmiðanir hafi mikla merkingu. Ég vil álíta að það sé vegna þess að sú staðreynd er meira og minna viðurkennd að heppilegast sé að blanda kommúnisma og kapítalisma saman, en auðvitað er það hægt á marga vegu. Ég neita því ekki að á margan hátt finnst mér kapítalisminn vera fulláberandi í Bandaríkjunum og e.t.v. er kommúnisminn of áberandi á Norðurlöndum. Þó finnst mér það ekki. En það kann að vera vegna þess að ég hef alist upp við hann og vanist honum á flestan hátt.

Eins er það eiginlega með hefðbundnar bólusetningar gegn sjúkdómum. Þar virðist mér Norðurlönd og Evrópa standa Bandaríkjunum framar. Sumstaðar er því meira að segja haldið fram að bólusetningar séu hættulegar. Ekki hefur þó tekist að færa neinar sönnur á því þó mikið hafi verið reynt. Með bólusetningum hefur tekist að útrýma sumum lífshættulegum sjúkdómum. Fylgismenn hinna hættulegu bólusetninga vilja samt ekki heyra neitt slíkt.

Svo er að sjá að bæði Bandaríkjaforsetar og karlar sem sækjast eftir slíkri vegsemd, álíti sjálfir að þeir þurfi helst að vera heilmiklir kvennabósar. Þó ekki væri vegna annars en þess get ég ekki annað en endurtekið spá mína frá því fyrir nokkrum dögum. Ég á von á því að Hillary Clinton sigri í Bandarísku forsetakosningunum með miklum yfirburðum. Hugsanlega með meiri yfirburðum en þekkst hafa. Feitu kettirnir sem mest hafa gefið í kosningasjóði Repúblikanaflokksins eru nú að hamast við að afneita Trump og sjá mikið eftir að hafa valið hann sem forsetaefni. Hætt er við að sá flokkur tapi miklu ef Trump tapar illa.

Ekki virðist fara ýkja mikið fyrir þessari hræðilegu rigningu sem Veðurstofan boðaði. Kannski á hún bara eftir að koma. Blautt um er þó búið að vera í dag (fimmtudag).

IMG 3305Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband