2517 - Pólitískar vísur o.fl.

Ég get alveg trúað Bandaríkjamönnum til að kjósa Hillary Clinton yfir sig. Alveg eins og þeir kusu Richard Nixon yfir sig á sínum tíma. Hins vegar á ég bágt með að skilja Íslendinga ef þeir kjósa Bjarna Benediktsson yfir sig aftur. Þó lítur Ice-Hot alls ekki illa út. Öfugt við Donald Trump, sem er alveg einsog fáviti í útliti. En....

Útlitið er innrætinu skárra,
samt einskis nýtt.

Eiginlega gæti þetta verið vísa sem byrjaði t.d. svona:

Donald nýtur hylli fremur fárra
finnst það skítt.

Áðan var ég á morgunrölti mínu og þá kom mér hug eftirfarandi vísa:

Úti vindur æstur hvín
ægilegt er rokið.
Nú held ég bráðum heim til mín
nú hef ég verki lokið.

Þessi vísa er sennilega ekki eftir mig. En varðandi fyrri vísuna er ég ekki í neinum vafa. Hún er áreiðanlega eftir mig sjálfan. Held að ég hafi ort hana fyrir löngu (ekki fiskinn samt) og þá um einhvern annan.

Kosningar þær sem framundan eru virðast ætla að verða allflóknar. Úrslitin réttara sagt. Líklegt er að keimlík stjórn verði hér áfram. Ekki er að sjá annað en Viðreisn sé bara útibú frá Sjálfstæðisflokknum og er þá illa farið með andstöðuna við ríkjandi stjórnarfar. Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Viðreisn geta e.t.v. myndað stjórn að kosningum loknum. Kannski verður það aðalbaráttumálið í væntanlegum kosningum að koma í veg fyrir það.

Súldin er alltumlykjandi. Því fékk ég á að kenna á mogunröltinu mínu áðan. Var satt að segja alveg rennblautur. En enginn er verri þó hann vökni og ekki var mér kalt. Engar myndir gat ég tekið fyrir rigningunni en það er bættur skaðinn. Ég er steinhættur að setja annað en gamlar myndir á Moggbloggssíðuna mína, því þar þarf maður að borga fyrir þau forréttindi að fá að birta slíkt, eða birta ekki. Á fésbókinni er allt ókeypis og er það eins gott. Ég er á móti því að borga fyrir þar sem hægt er að fá ókeypis annarsstaðar. T.d. er óhætt frá mínu sjónarmiði að segja að Fréttablaðið hafi drepið önnur blöð. Apropos Fréttablaðið. Kannski það sé í þann veginn að hætta að berast hingað. Kom ekki s.l föstudag og heldur ekki í morgun. En mér er svosem sama. Alveg gat ég komist af án þess þangað til ég flutti hingað á Akranes.

IMG 3351Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband