2507 - Kosningar og þess háttar

Hvað pólitík varðar finnst mér stjórnarskráin skipta verulegu máli því hún hefur hugsanlega áhrif á stjórarfarið allt. Ekki var mikill áhugi á að knýja fram úrslit í því máli um það bil sem síðasta kjörtímabili lauk. Nú er þessu kjörtímabili að ljúka og ekki er að sjá annað en a.m.k. Píratar, Vinstri Grænir og Samfylking hafi mestan áhuga á því að tryggja Framsóknarmönnum sem mestan árangur af stjórnarskrármálinu. Þetta segi ég vegna þess að með því að vera á móti þeim breytingum á stjórnarskránni sem þó reyndist vera hægt að ná fram á þessu kjörtímabili sýnist mér sem bara sé verið að þjóna þeim flokki.

Þeir sem lengst eru til vinstri í stjórnmálum þreytast ekki á að halda því fram að greidd hafi verið atkvæði um nýju stjórnarskrárdrögin og þau samþykkt. Svo var ekki. Það var bara samþykkt að byggja á þeim. Síðan er hægt að túlka þá þjóðaratkvæðagreiðslu eins og hverjum sýnist. Að vísu voru nokkur atriði tiltekin og samþykkt. Alþingi (eða réttara sagt sá meirihluti sem öllu ræður) hefur ákveðið, eftir vandlega athugun, að gera það ekki. Framsóknarflokkurinn virðist þó ætla að slá sér upp á stjórnarskrármálinu. Ýmislegt bendir til að staða Sjálfstæðisflokksins sé fremur þröng.

Sennilega er ekki nóg með að Árni Páll Árnason hafi drepið stjórnarskrármálinu á dreif í lok síðasta kjörtímabils heldur er ekki annað að sjá en hann hafi einnig drepið Samfylkinguna eða a.m.k. sært holundarsári í leiðinni. Vitanlega er varasamt að persónugera stjórnmálin með þessum hætti. Andstæðingar SDG og Viggu Hauks gera það samt gjarnan. Satt að segja eru stjórnmálamenn ekki öfundsverðir af hlutverki sínu. Sæmilega er samt borgað fyrir starfið núorðið en svo hefur ekki alltaf verið.

Vel getur farið svo að úrslit kosninganna sem líklegt er að verði í októberlok n.k. verði með líkum hætti og skoðanankannanir benda nú til. Eitt er víst að þær verða allspennandi. Mest spennandi af því sem gerast mun mjög fljótlega er að vita hvort SDG tekst að hanga inni sem formaður Framsóknarflokksins.

Það sem hætt er við að reynist þeim erfitt sem stjórna eru flóttamannamálin. Efnahagslegir flóttamann er nefnilega ekki öðruvísi en aðrir. Miðausturlönd og Afríka eru svo fjölmenn að Vesturveldin, sem lengi hafa haldið þessum svæðum niðri, verða nú að fara að hugsa um fleiri en sjálfa sig.

Veðrið leikur við okkur sem viljum alltaf hafa sólskin umfram allt. A.m.k. er það þannig hér á Íslandi. Ekki finnst mér hafa verið rigningasamt í sumar. Kannski er ekki vert að hrósa veðrinu of mikið. Hjátrúin er líka hættuleg. Kannski er hnatthlýnunin staðreynd.

Eiginlega hef ég alltaf haft svolítinn áhuga á landafræði. Ég get samt ekki svarað því hvers vegna Burma verður skyndilega að Myanmar, Bombey að Mumbai, Peking að Beijing eða Leningrad að Sánkti Pétursborg o.s.frv. Kannski er til lítils að vera að leggja landfræðileg nöfn á minnið og rembast við að teikna allskyns kort í huganum nú á dögum Google earth og GPS.

IMG 3885Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband