2505 - Pólitík o.fl.

Nú er ég að verða óstöðvandi í blogginu. Fésbókin finnst mér vera meira svona eins og kjaftæði yfir kaffibolla. Kannski er bloggið ekkert betra. Ég er bara vanari því. En eins og kunnugt er þá ku vera erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Úr því að ég er einu sinni búinn að tileinka mér aðferðina við að blogga þá er afleiðingin sú að ég get ekki hætt, eða á a.m.k. erfitt með það. Þar að auki hef ég fremur gaman af því að skrifa (hugsa upphátt) og úr því að einhverjir lesa þetta er óþarfi að hætta. Af því að Moggabloggið er með þeim ósköpum gert að enn þarf að borga fyrir plássið (a.m.k. veit ég ekki betur) þá er ég að mestu hættur að setja myndir og þvíumlíkt þangað, en nota í staðinn fésbókina fyrir þessháttar.

Alveg er ég hissa á öllu því sem sett er á fésbókina. Þó sé ég sennilega minnst af því. Þar sjá menn bara það sem þeir vilja sjá og hafa lítinn áhuga á öðru. Með tímanum verður þetta einskonar þöggun því ef farið er útfyrir það sem almennt er talið normal þá er ráðist miskunnarlaust á þann sem það gerir. Rétthugsunin er næstum yfirþyrmandi. Kostirnir við fésbókina eru samt margir, en pólitískt séð ímynda ég mér að hún sé stórhættuleg. Hvers kyns fordómar og einsýni vaða þar uppi. Fjölmiðlarnir stíla inná þetta. Sá sem best kann á þjóðfélagslegu miðlana vinnur. Eiginlega er ekki óhætt að hafa skoðun á neinu.

Áfram held ég að fjalla um pólitík, þó mér þyki heldur lítið til þeirrar tíkur koma. Kosningar er sagt að halda eigi í október næstkomandi. Þessvegna er ekki furða þó flokkar vilji halda prófkjör eða eitthvað þessháttar. Einhverjum vandræðum virðist blessuð Samfylkingin þó eiga í hér á Vesturlandi. Í fréttum var frá því skýrt að þrír mundu taka þátt í prófkjöri hreyfingarinnar hérna og að fyrstu fjögur sætin skyldu vera bindandi. Skýring hlýtur að vera til. Upplagt er þó að gera grín að þessu.

Aðalatriðið í umgengni sinni við fésbókina er að skrifa sem minnst. Ég reyni að lifa eftir því að skrifa sem minnst á fésbókina en blogga sem allra mest. Örugglega hentar það ekki öllum og er það vel. Að sjá eftir því sem maður setur hugsunarlaust á fésbókina er vísasti vegurinn til að verða óhamingjusamur. Er hamingjan þá fólgin í því að blogga sem allra mest? Nei, hún er fólgin í því að láta ekki óáranina í heiminum hafa of mikil áhrif á sig.

Fastasti punktinn í tilverunni er að hafa hádegisfréttirnar í útvarpinu klukkan tuttugu mínútur yfir tólf. Þessar hádegisfréttir voru víst eitt sinn aðalfréttatími dagsins. Mér er nær að halda að þannig hafi það verið á Íslandi allar götur frá því að útvarpið hóf göngu sína, sem mér er fortalið að hafi átt sér stað árið 1930. Ekki man ég eftir því og ekki man ég heldur eftir hádegisfréttatímanum á öðrum tíma en þessum. Annars virðist dagurinn ekki byrja hjá sumum fyrr en um hádegið.

Eiginlega er engin furða þó fólki finnist allt ganga á afturfótunum í veröldinni. Mannfólkinu fjölgar og hraðinn eykst. Tækninni fer fram og fjölmiðlunum fjölgar. Internetið yfirgnæfir allt og fær fólk til að halda að það sé þátttakendur í allskyns atburðum. Fréttaflutningur er slíkur að engu er eyrt. Alltaf er nóg til að óskapast yfir. Ríkidæmi yfirstéttarinnar er orðið slíkt að meira verk er að eyða tekjunum en afla þeirra.

IMG 4170Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband