2497 - Hillary og Donald

Flestir þurfa á útiveru að halda. Hún er holl og nauðsynleg. Sumir þurfa einhverja afsökun fyrir því að fara út. Golfið er vinsælt. Veiðimennskan einnig. Og nú á allra síðustu tímum Pókemon Go. Gaman er stundum að hlusta á golfara og veiðimenn lýsa því fjálglega yfir að það skemmtilegasta við veiðimennskuna eða golfhringina sé útiveran og náttúran. Hversvegna ekki að láta þessar afsakanir eiga sig. Það er alveg nóg að elska náttúruna og það er miklu heilbrigðara að láta dýr merkurinnar og litlar hvítar kúlur eiga sig alveg við að njóta samvista við hana. Aðalspurningin er sú hvort gera eigi það í einrúmi eða með öðrum.

Hingað til hef ég ekki sett mannsnafnið Örnólfur í samband við það að ganga örna sinna. Kannski er það samt ekki alveg fráleitt eftir að skilti sem banna losun hægða á ákveðnum stöðum fóru að láta á sér kræla. Einhvern vegin get ég ekki hugsað mér að ganga örna minn úti á víðavangi en auðvitað er svo margt sinnið sem skinnið í þessu efni eins og öðrum. Alltaf finnst mér samt svolítið óviðkunnanlegt að sjá myndir af löngum biðröðum við almenningsklósett.

Eiginlega er ég alveg sammála Donald Trump um það að ansi margt er að fara í hundana í Bandarikjunum. Ég er þó ekki sammála honum um það, að hann sé rétti maðurinn til að lagfæra það. Satt að segja er ég sannfærður um að ástandið muni versna mikið þar, ef hann verður forseti. Það er samt hugsanlegt að hann sigri Hillary Clinton því hún er fremur óvinsæl hjá ýmsum hópum þar. Og þá á ég auðvitað ekki við stjórnmálamenn úr repúblikanaflokknum sem flestir hata hana eins og þeim ber. Að sumu leyti er hún ekki sérlega vel til þess fallin að verða fyrsti kvenkyns forsetinn í Bandaríkjunum, en hún er samt mun skárri en Trump. Nú hafa þau bæði hlotið útnefningu flokka sinna og annaðhvort verður það Hillary Clinton eða Donald Trump sem verður næsti forseti Bandaríkjanna. Ég hef gaman af að spá, þó sjaldan sé að marka þá spádóma. Mín spá er sú að Hillary taki áberandi forskot í skoðanakönnunum nú á næstunni og ef henni tekst að halda því muni hún sigra Trump með yfirburðum. Ef ekki, er alveg hægt að búast við að Trump verði næsti forseti Bandaríkjanna. Vonandi að þá verði hann betri forseti en margir virðast búast við núna.

Allir geta tekið myndir. Og flestir gera það nú orðið svikalaust. En geta allir skrifað skammlausan texta? Sennilega er svo. En í vaxandi mæli eru menn að hasast upp á því. Af hverju skyldi það vera? Jú, það er svo auðvelt að taka myndir og jafnvel videómyndir. Græjurnar sem til þess þarf eru sífellt að verða ódýrari og ódýrari. Auðvitað eru það framfarir. Lestur og skrift eru samt þeir undirstöðuþættir sem ekkert getur komið í staðinn fyrir. Skilningur á því virðist á undanhaldi hjá börnum nútímans. Samt er engin ástæða til að æðrast. Unga fólkið í dag er mun hraustara og hæfileikaríkara en áður var. Sumum þeirra gengur samt erfiðlega að ná tökum á undirstöðunni. Skólarnir sem sífellt eru að batna eru samt ekki eins góðir og þeir gætu verið. Þetta finnst mörgu eldra fólki og fullorðnu og kannski er það með réttu.

IMG 5273Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband