2493 - Um trúmál o.fl.

Eitthvert blað, sennilega í henni Ameríku, hélt því fram nýlega að Donald Trump hafi sagt að múslimar hafi drepið Jesú. Satt að segja er mér alveg drullusama eins og krakkarnir segja. En ég geri mér grein fyrir því að svo er því allsekki farið með alla.

Allt frá því að ég las á sínum tíma Fjallkirkjuna eftir Gunnar Gunnarsson, sem líklega hefur verið á táningsárum mínum eða fyrr, hef ég haft megnustu andúð á hvers kyns trúmálaþvargi og er sannfærður um að það leiði yfirleitt ekki til neins. Niðurstöðu er engin leið að fá og hver étur venjulega úr sínum poka.

Þegar ég var í fermingarundirbúningi man ég að séra Helgi Sveinsson fór með okkur í Kotstrandarkirkju eitt sinn til æfinga. Ég hef alltaf verið fyrir útúrsnúninga og orðhengilshátt og þegar séra Helgi, sá geðprýðismaður, spurði okkur hvað orðið kirkja merkti en á því gætu verið fleiri en ein merking, sagði ég í mesta sakleysi að auðvitað gæti verið um sagnorðið að ræða. Séranum mislíkaði þetta svar mitt mjög og hótaði að reka mig út. Svo fór þó ekki en auðvitað veit ég núna um þessa merkingu sem hann var að fiska eftir.

Erfitt er ennþá að sleppa því alveg að tala um fótbolta enda held ég að úrslitaleikurinn í Evrópukeppninni fari fram í dag. Var áðan að lesa (mig minnir á BBC-vefnum) grein eftir sérfræðing í boltasparki, sem hefur lengi fylgst af áhuga með öllum meiriháttar knattspyrnumótum, að leikirnir milli Wales og Belgíu annarsvegar og hinsvegar milli Íslands og Englands séu tvímælalaust eftirminnilegustu leikirnir frá þessu Evrópumóti. Auðvitað er hann ekki óhlutdrægur en ég hugsa að hann hafi talsvert vit á þessu. Hann sagði einnig að Frakkarnir væru með besta liðið og breytingin úr 16 liða keppni í 24 liða hafi mistekist en verði samt líklega ekki hætt úr þessu.

Kannski skýrast línur eitthvað í íslenskri stjórnmálastarfsemi á komandi sumarþingi. Þó held ég að svo verði ekki. Kosningar, hvort sem þær verða í haust eða næsta vor, gætu orðið sögulegar en verða það sennilega ekki. Til þess eru tök fjórflokksins og stuðningsmanna hans of mikil í íslensku þjóðlífi.

Breytingar á hugsunarhætti fólks eru samt sem áður ákaflega gagntækar frá því á árunum fyrst eftir styrjöldina miklu. Nú þegar minningin um þær hörmungar sem þá áttu sér stað er svolítið farin að dofna er ástæða til að gjalda varhug við þjóðrembu hverskonar og innilokunaráráttu. Satt að segja örlar nokkuð á skaðlegum áhrifum slíkra hugsana í stjórnmálum dagsins bæði hérlendis og erlendis.

IMG 05181Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband