2489 - Frá Brexit til Texit

Á margan hátt var það Elísabet Jökulsdóttir sem var skemmtilegasti forsetaframbjóðandinn. Halla Tómasdóttir var svona eftirá séð einna forsetalegust, en segja má að aðstæður allar hafi verið Guðna hagstæðar og meðal annars þess vegna hafi hann verið kosinn.

Ég get fallist á það með Össuri Skarphéðinssyni að Guðni hefði tæpast þolað mikið lengri kosningabaráttu. Halla hefði hugsanlega brunað framúr honum. Hinsvegar var Andri Snær alltof glottaralegur til að komast almennilega úr sporunum og þar að auki með pólitískan stimpil. Aðrir held ég að hafi aldrei komið til greina.

Að mörgu leyti virðist þessi kosningabarátta hafa farið vel fram. Kannski kunna Íslendingar fleira en að leika knattspyrnu.

En það dugir ekki að dvelja við þetta alltof lengi. Nú er það knattspyrnan sem blívur. Leikurinn við Englendinga í 16-liða úrslitunum á Evrópukeppninni er það sem allt snýst um. Vinni Íslendingar hann, sem vel er hugsanlegt, erum við farnir að nálgast undanúrslitin og lengra er gjörsamlega útilokað að við komumst.

Hver verða áhrifin af Brexit? Mín skoðun er sú að svo mikilvægt sé fyrir ESB að halda Bretum þar inni að þeir muni gera þeim tilboð áður en eiginlegar viðræður hefjast um raunverulega útgöngu. Eflaust mun þurfa aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um það.

From Brexit to Texit var fyrirsögn sem ég sá einhversstaðar og þar er átt við að fylkið eða ríkið Texas vilji gjarnan fá sjálfstæði aftur frá Bandaríkjunum. Það sem margir eru vanir að kalla þrælastríðið var í rauninni stríð sem háð var um það að nokkur fjöldi af Suðurríkjunum svokölluðu vildu segja sig úr lögum við Norðurríkin. Það fengu þau ekki og af spratt blóðug borgarastyrjöld. Frá um 1860 (þegar Abraham Lincoln var kjörinn forseti) og þar til skömmu áður en hann var myrtur stóð sú styrjöld.

Auðvitað er ég ekki að spá því að útganga Breta leiði til slíkra hörmunga, en á ýmsan hátt kann þetta að leiða til margs.

IMG 0744Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband