2488 - Forsetakosningarnar eru fjölmiðlahátíð

Auðvitað er útganga Breta úr ESB mál málanna. Trú mín er sú að reynt verði að gera sem minnst úr þessu. Óvissa verður þó ríkjandi um margt því margt þarf að semja um áður en af raunverulegri útgöngu verður. Slæmar fréttir eru þetta fyrir marga. Flóttamenn og almennt þá sem minnst mega sín þó sérstaklega. Líka má búast við straumhvörfum í allri þróun heimsmála í kjölfar þessa.

Í dag eru það samt forsetakosningarnar sem skipta okkur Íslendinga mestu máli. Í gær var það Brexit og á mánudaginn er það fótbolti. Eiginlega er of margt að gerast þessa dagana. Allir ættu þó að hafa nóg til að óskapast yfir. Ekki vantar það. Fjölmiðlar hafa lítið talað um gúrkutíð. Hún mun samt taka við að þessu loknu.

Annars hefur aðdragandi forsetakosninganna verið tíðindalítill að þessu sinni og hægt er að reikna með að kosningarnar sjálfar fari nokkuð vel fram. Æsingurinn er lítill og allt er þetta fremur hófstillt. Ýmislegt kann þó að hafa verið sagt á fésbókinni og fleiri samfélagsmiðlum, en auðvelt er að leiða það allt hjá sér.

Auk þess að hafa verið tækjasjúkur besserwisser á mínum sokkabandsárum hef ég alla tíð verið heldur þungur í skapferli finnst mér a.m.k. núna á ævikvöldinu. Það er ekki alltaf hægt að vera hress og kátur. Þeir sem alltaf eru þannig eru fljótir að verða gervilegir og flestir sjá auðveldlega í gegnum þá. Eiginlega er nauðsylegt að fara í fýlu öðru hvoru. Spurningin er bara hve auðvelt er að komast úr henni aftur. Sú leið er, hvað mig snertir, sífellt að verða auðfarnari, líkamlegu atgervi fer þó aftur.

Blogg og hverskyns skrif eru bara stundarfyrirbrigði. Akkúrat á því augnabliki sem þau eru skrifuð eru þau kannski innileg meining þess sem skrifar. Hvort þau halda áfram að vera það getur verið alveg undir hælinn lagt. Bókmenntir virðast eiga sífellt minna erindi til almennings nú þegar allir geta skrifað og fjölmiðlast eins og þeim sýnist og um allt má skrifa.

IMG 0527Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband