2481 - Ólafía hvar er Vigga?

Lesendum mínum á blogginu hefur fækkað nokkuð undanfarna daga. Kannski er það vegna þess að ég hef ekki vandað mig nógu mikið við fyrirsagnirnar. Þær þurfa helst að vera í einhverjum tengslum við fréttir dagsins. Ekki er verra að þar sé að finna nafn eða nöfn. Annars verð ég bara að taka þessu. Ég er alls ekki að skrifa fyrir aðra. Eða ég ímynda mér það allavega. Lesendum mínum hefur svosem ekki fækkað svo mikið að ég sé að hugsa um að hætta. Fjarri því. Já, þetta er hótun. Það er engin hætta á því að ég hætti. Og ég mun halda áfram að skrifa um það sem mér sýnist. Hvort sem um er að ræða skítandi túrista eða spýtubrjóstsykur. Svoleiðis er það bara. Já, þetta er innihaldslaust raus, ég geri mér alveg grein fyrir því.

Einhvern veginn er það svo að fólk lítur ekki á hnífa sem vopn. En auðvitað eru þeir það. Ég á að sjálfsögðu við flugbeitta eldhúshnífa. Þeir eru samt ekki eins ópersónulegir og fjarlægir og byssufjandarnir eru núna og í framtíðinni verða drónarnir það. Í þeim löndum þar sem byssur eru leyfðar svotil hindrunarlaust eru þær miklu algengari til drápa en hnífar. Ætli það sé ekki einkum vegna þess að þær eru svo ópersónulegar og fjarlægar. Hnífar eru á allan hátt síður til slíks fallnir og sérlega ógeðslegir ef þannig er á málin horft. Hvers vegna í ósköpunum er ég að velta þessu fyrir mér. Get bara ekkert að því gert. Svona er þetta bara. Allan andskotann hugsa ég um og velti fyrir mér.

Appú sagði Lilla Hegga. Eða var það ekki? Allavega held ég að þetta sé frá Þórbergi komið. Fyrst þegar ég heyrði þetta skildi ég það ekki. Appú þýðir að sjálfsögðu allt búið og má alveg nota í staðinn fyriri enskuglósuna „The End“ sem margir hafa séð. Lilla Hegga var systir hennar Biddu að ég held. Bidda eða Birna Torfadóttir var á Bifröst um svipað leyti og ég. Einu sinni koma Lilla Hegga í heimsókn þangað og þá var Þórbergur búinn að gera hana fræga.

Mér finnst það nú svolítið hinsegin að vígja nýja fangelsið á Hólmsheiði án þess að fangar fái að koma þar nærri. Ekki get ég álitið það að fullu tekið til starfa fyrr en fangar hafa komið sér þar fyrir. Eða verið komið þar fyrir. Vel hefði fulltrúi þeirra sómt sér hjá þeim sem nú klappa sér á bakið fyrir þetta afburðafína fangelsi. Kannski verða fangar sem þar verða vistaðir hunóánægðir með nýja fangelsið. Nú, eiga þeir ekki að vera það? Eginlega hefði verið stæll á því að láta útrásarvíkinga gista þar fyrst. En það er víst orðið of seint.

Auðvitað ætti maður að vera löngu dauður miðað við alla þá óhollustu sem maður hefur látið ofan í sig á langri ævi. Man t.d. vel hvað mér brá þegar ég tók gúlsopa af steinolíu sem ég hélt að væri seven-up. Var að drepast í maganum allan daginn. Einu sinni þefaði ég líka uppúr besíntanki á traktor þangað til ég var svo ruglaður að ég valt um koll. O.s.frv. o.s.frv.

Ólafía hvar er Vigga?
Hún er uppí sveit
að elta gamla geit
Ólafía hvar er Vigga?

IMG 1298Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband