2462 - Forsetar hér og forsetar þar

Síðasta blogg mitt kallaði ég „Davíð fjórtánda“. Ekki átti það að vera nein tilvísun í sólkonunginn sjálfan, Lúðvik 14., heldur skildist mér að Davíð Oddsson væri fjórtándi frambjóðandinn til forsetaembættisins. Annars veit maður aldrei frá degi til dags hve margir frambjóðendurnir eru. Eflaust fá þeir langflest atkvæðin sem fjölmiðlarnir hampa mest og hafa best lag á að koma sér þangað. Þannig hefur það verið og þannig mun það verða. Einnig skiptir eflaust máli að vera óþreytandi við að kynna sinn málstað og hafa sem flesta og duglegasta stuðningsmenn. Vel er hægt að hugsa sér að internetið og fésbókin verði undirlögð á næstunni undir áróður í tilefni af fosetakosningunum. Við því er að búast og vel er hægt að varast þann áróður.

Ef gert er ráð fyrir að engum snúist hugur úr þessu og Ólafur hætti við og Davíð haldi sínu til streitu þá finnst mér líklegast að barátta standi einkum á milli Davíðs og Guðna. Andri Snær og aðrir komi þar á eftir með miklu minna fylgi. Halla virðist þó taka þessa baráttu alvarlega. Aðrir fá miklu færri atkvæði geri ég ráð fyrir.

Er líklegt að allir þeir sem hættu við þegar ÓRG varpaði sinni næstsíðustu sprenju hætti núna við að hætta við? Hvernig er skynsamlegast að haga sér þegar forsetinn sjálfur lætur svona?

Er ekki sjálfsagt að bíða þangað til framboðsfrestur er útrunninn og sjá þá hverjir ætla að bjóða sig fram í raun og veru. Auðvitað skipta skoðankannanir miklu máli og greinilega eru sumir forsetaframbjóðendur núna að þessu einkum í auglýsingaskyni.

Kannski er Trump nær Demókrötum í mörgum málum en halda mætti. Auðvitað er það svo að mest sker í augun stefna hans í málefnum ólöglegra innflytjenda og flóttamanna. Múslimahatur hans er líka kunnugt. Slagorð hans er „Gerum Bandaríkin aftur stórkostleg,“ Þetta allt saman gæti bent til vaxandi einangrunarhyggju. Kannski er það vinsælla í Bandaríkjunum en margur hyggur. Kvenhatur hans er einnig þekkt og gæti orðið honum til trafala ef hann dregur ekki úr því. Ef Trump tekst að breyta ímynd sinni verulega getur hann vel orðið frambjóðanda Demókrataflokksins hættulegur. Múrinn milli Mexikó og Bandríkjanna sem hann hefur boðað og ósveigjanleg stefna hans í innflytjenda og flóttamannamálum er nokkuð sem hann þarf að breyta. Dragi hann í land með það eins og fjöldamargt annað gæti það haft slæm áhrif á kjörfylgi hans.

Ekki eru allir ánægðir með að Trump skuli vera orðinn svo gott sem frambjóðandi repúblikanaflokksins. T.d. finnst trúarnötturum að The Grand Old Party (GOP) hafi svikið sig. Einnig hefur hann stjórn Repúblikanaflokksins að mestu leyti á móti sér. T.d. hafa Bushar-arnir næstum allir lýst yfir andstöðu við hann.

Trump hefur sagt að gera megi undanþágu frá múslimabanni sínu fyrir borgarstjóra Lundúaborgar. Sá borgarstjóri segist samt taka frambjóðanda demókrataflokksins framyfir Trump.

Forsetakosningar, bæði hér á skerinu og í Bandaríkjunum eru þó fremur þýðingarlitlar, því þessir blessaðir forsetar ráða fremur litlu í lýðræðisríkjum. Þingkosningar eru oftast miklu afdrifaríkari.

IMG 2349Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband