2447 - Margir lesa "nafnablogg"

Getur verið að Lára Bush kjósi Hillary Clinton. Sumir halda það já. Eflaust mundi hún ekki viðurkenna að hafa farið flokkavillt, en kosningarnar eru nú einu sinni leynilegar.

Já, já. Simmi varð að athlægi um allan heim. Svona er nú að vera forsætis yfir fáeinum hræðum. Og kunna ekki að skammast sín. Gæti vel trúað að Siggi passi sig vel.

Þar sem þeir stóðu í stiganum fóstbræðurnir og stigamennirnir Bjarni og Sigurður fór ekki hjá því að maður yrði var við að Bjarni ætlaði sér að trompa Sigga greyið. Eiginlega hef ég aldrei séð Bjarna svona guðföðurlegan eins og hann var þarna. Hárið, dökkt, þykkt og mikið var alveg sleikt aftur eins og á alvöru mafíósa. Svo var hann sólbrúnn að auki. Sigurður var aftur á móti ekkert nema hægðin. Stóð meira að segja svolítið fyrir aftan Bjarna. Kannski stóðu þeir samt í sömu tröppunni en myndin í ríkisstjónvarpinu var a.m.k. þannig tekin að Bjarni virkaði mun stærri og meiri en Sigurður ræfillinn. Bjarni fullvissaði viðstdda um það að þó hann hefði ekki kært sig nokkurn skapaðan hlut um forsætisráðherratignina (ehemm) þá væri eiginlega allt óbreytt. Enginn árangur ekkert stopp sagði hann efnislega. Nú að Sigmundi sólkonungi gengnum væri samt vissara að setja þann varnagla að kannski yrði kosið fljótlega og hugsanlega tækist með því að setja einskonar þumalskrúfur á stjórnarandstöðuna.

Kannski er við hæfi að hugleiða smávegis forsetakjörið sem yfirvofandi er. Rithöfundarlausir getum við ekki verið. Um leið og fyrrverandi fótboltamaðurinn og rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson gaf til kynna að hann ætlaði að hætta við framboðið var kominn annar rithöfundur og ekki síðri. Kannski örlítið vinstrisinnaðri ef útí það væri farið. Vel getur samt verið að Andri Snær sé frambærilegri en flestir aðrir sem boðað hafa framboð hingað til. Bíðum bara. Þetta gæti vel orðið spennandi.

Sá áðan bók sem konan mín fékk á bókasafninu í gær. Þessi bók heitir „Nenni ekki að elda“. Nafnið sjálft er virkilega gott og að sjálfsögðu byrjaði ég aðeins á formálanum og sú byrjun var athyglisverð líka. Kannski les ég ekki mikið meir í þessari bók því mér sýnist þetta vera matreiðslubók en þær hef ég fremur fáar lesið um æfina. Blaðaði samt pínulítið í bókinni og þó myndirnar væru margar og plássfrekar þá sá ég ekki betur en höfundurinn hefði næstum sjúklegan áhuga á poppkorni og notaði allof mikinn sykur.

Sennilega er hæfilegt fyrir mig að blogga svona annan hvern dag. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað réttast væri að kalla þetta blogg mitt. Margir þekkja það hygg ég vegna þess að ég töluset það jafnan. Kannski mætti þess vegna kalla það „númerablogg“. Glósurnar gáfumannablogg, lífstílsblogg, fréttablogg, matarblogg, bókablogg og málfarsblogg finnst mér ég ekki geta notað. Það er þá helst að ég mundi sætta mig við að þetta blogg mitt væri kallað: „Gamalmennablogg“. Annars skiptir þetta svosem engu máli. Mér finnst að menn geti kallað það eitthvað eða ekkert.

WP 20160316 10 38 31 ProHöfði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband