2443 - Þetta blogg er ekki (nema að litlu leyti) um SDG

Oft er vitnað í orð Styrmis Gunnarssonar fyrrum Moggaritstjóra um að stjórnmál á Íslandi séu ógeðsleg. Víst eru þau það, en ekki þarf það að benda til þess að ómerkilegt eða ógeðslegt sé að hafa áhuga á þeim. Áhugi á þeim leiðir oft til þess sem ég vildi gjarnan kalla vinstrimennsku, en kannski er það ekki allskostar rétt.

Áhugi fólks á Íslandi á stjórnmálum hefur aukist mikið eftir Hrunið. Eða hið svokallaða hrun eins of sumir vilja kalla þá atburði sem hér urðu á seinni hluta árs 2008. Stjórnmálamenn og þó einkum þingmenn og margir ráðamenn virðast samt hafa mikinn áhuga á að endurvekja hér það ástand sem ríkti fyrir Hrunið árið 2008.

Undarleg er sú skoðun sumra framsóknarmanna að það skipti máli fyrir þá umræðu sem nú er um hugsanlega hagsmuni forsætisráðherra af því að leyna hagsmunum nánustu fjölskyldu sinnar (og þar með sínum eigin) hvernig staðið var að málum hjá þeirri ríkisstjórn sem var við völd fyrir þremur árum. Og svo sannarlega er illa komið fyrir þeim flokki sem treystir flokkahlaupara sem Ásmundi Daðasyni fyrir vörnum sínum. Jafnvel Karl Garðarsson hefði verið betur til þess fallinn.

Hann féll og hans fall var mikið. Þegar ég byrjaði á þessu bloggi virtist Sigmundur Davíð næstum ósnertanlegur. Mikið hefur þó breyst síðan það var og satt að segja er ég að hugsa um að blogga um eitthvað annað en það sem allra efst er á baugi núna.

Það er ekkert skemmtilegt að verða gamall. Allt gengur miklu hægar. Að sofa út á hverjum morgni er gríðarlega ofmetið. Allskonar smávægilegir líkamlegir kvillar eru sífellt að hrjá mann o.s.frv. Enginn hefur áhuga á því sem manni sjálfum þykir stórmerkilegt. Vissulega snertir flest af því mann sjálfan. En hvað um það. Það er jafnvel stórmál að komast í buxurnar á morgnana. Vitanlega væri hægt að fjölyrða mikið um allt mögulegt þessháttar. En hver hefur áhuga á slíku?

Offita er líkt og flóðbylgja yfir íslenskt heilbrigðiskerfi. Þetta minnir mig að hafi staðið í Fréttablaðinu ekki alls fyrir löngu. Er hugsanlegt að ódýr matur í lágvöruverðsverslunum valdi því? Góður og ódýr matur gæti hæglega verið orsökin. Fólk lifir lengur, borðar betri mat en áður og kunnáttu í matargerð fer sífellt fram. Manni finnst allir matarkúrarnir snúast um keisarans skegg. Einfaldast ætti að vera að borða bara svolítið minna. En það er alls ekki einfalt. Lífskjörin eru betri en áður var og ekkert stöðvar fólk í því að borða sem allra mest af góðum og hollum mat.

Á hverjum morgni þarf ég að klæða mig að einhverju leyti og fara niður nokkrar hæðir í lyftunni og sækja Fréttablaðið. Auk þess þarf ég auðvitað að fara smá í tölvuna, líta aðeins á fésbókina, taka töflurnar mínar, borða múslið mitt o.s.frv. Þegar ég er svo búinn að drekka fyrsta kaffibollann þá kemst ég kannski í gang.

WP 20160309 10 21 11 ProHvíldarstaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband