2430 - Setið við sama borð

Auðvitað skrifa ég bara um það sem mér finnst merkilegt. Mörg eru þau mál sem ofarlega eru á baugi í fréttamiðlum en ég minnist ekki á. Það væri raunverulega að æra óstöðugan að ætlast til þess að ég kommentaði á allt sem kemst í fréttirnar. Sumir virðast reyndar gera það, en ég treysti mér ekki til þess. Verð bara að viðurkenna að ég hef ekki vit á öllum hlutum.

Undanfarið hef ég bloggað flesta daga. Ætli ég fari ekki að hætta því. Vitanlega kemur fyrir að ég blogga einhverja bölvaða vitleysu. Það gerir samt ekki mikið til. Ef maður bloggar eins mikið og ég geri fer ekki hjá því að finna megi allskyns vitleysur og misskilning. Þó held ég að ekki sé meira um það hjá mér en öðrum. Vonandi minna.

Dreymdi um daginn að ég væri staddur í Árbænum. Nánar tiltekið á Rofabæ. Þar var ég gangandi á gangstéttinni og búinn að ákveða að taka strætó þar, en gekk af einhverjum ástæðum, sem ég skil allsekki sjálfur, framhjá stoppistöðinni, en sneri þó við þegar vagninn gerði sig líklegan til að fara aftur af stað. Mér tókst að ná taki á hurðinni og hékk á henni þó hún væri lokuð. Vagnstjórinn opnaði dyrnar og átti greinilega von á að ég kæmist þá inn. Ég gat samt ekki náð jafnvægi án þess að sleppa takinu fyrst. Um leið og ég sleppti því datt ég ofan á gólf og vaknaði við það.

Sennilega hef ég skrifað áður um þetta sem hér fer á eftir, en góð vísa er aldrei of oft kveðin, eða þannig. Var að kíkja í Boðnarmjöðinn á fésbókinni áðan svo það er engin furða þó vísur rifjist upp fyrir mér. Sléttubandavísur hef ég nokkrar gert. Ein var svona:

Sléttubandavísa var
valin hér í bréfið.
Gettu hvaða vísu var
vígorð þetta gefið.

Að vísu er endarímið fremur ófullkomið. Þetta var í ljóðabréfi þar sem ferskeytla þurfti allt. (Ágætis æfing) Svo þurfti ég náttúrlega að útskýra þetta allt saman í sérstakri vísu. En sleppum því.

Álfurstunum hefur orðið tíðrætt um að fá að sitja við sama borð og aðrir. En sitja þeir við sama borð og aðrir landsmenn þegar að orkukostnaði kemur? Held ekki. Og örugglega sitja þeir ekki við sama borð og réttir og sléttir hafnarverkamenn þegar launin eru ákveðin, nema verkamenn þar hafi nokkrar milljónir í kaup á mánuði, sem ég efast um.

WP 20160210 13 00 09 ProSólskin á Þorra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Maður getur líka lesið vitlaust,var að tönglast hér á "Álfur stunum", minnir á þegar þulur gömlu Gufunnar lásu ístruflanir,sem ístru flanir.Góðar stundir.

Helga Kristjánsdóttir, 3.3.2016 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband