2428 - Brexit

Að búa til orðið brexit ber vitni um að íslenskan er ekki alveg vonlaus. Annars er þetta líklega alþjóðlegt orð. Ég skil það þannig að það tákni útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Og sennilega er það rétt hjá mér. Verst að það verður varla hægt að nota það lengi því mér segir svo hugur um að Bretar vilji ekkert fara. Einhverjir vona það samt og víst er að ESB mun breytast mikið ef svo fer.

Alþjóðastjórnmál eru að mestu leyti fyrir ofan minn skilning þó þau séu vissulega á meðal áhugamála minna. Þó ég spái áframhaldandi veru Stóra-Bretlands í ESB er ekkert víst að svo verði. Ég er svosem alveg vanur því að hafa rangt fyrir mér í öllum spádómum. En er það ekki árangur á vissan hátt? Mér finnst það.

Undarlegur þessi áhugi flestra fyrir Þvottahúsi Ríkisspítalanna og Reykjavíkurdætrum. Eða ætti ég kannsi að segja Hveragerðisdóttur. Man svolítið eftir pabba hennar Ágústu Evu en ekki mikið. Eldborgin fannst okkur krökkunum þó að væri nánast fyrir utan þorpið. Gott samt að hafa íbúðarhús svona nálæt réttunum. Horfði á byrjunina á ósköpunum hjá Rvíkurdætrum á fésbókinni en var ekki með hljóðið á. Þegar ég sá að búast mátti við 5 mínútum eða rúmlega því af þessu, hætti ég að horfa og fór að gera eitthvað annað.

Sennilega er ég búinn að skrifa meira en nóg um Donald Trump. Ætla samt að halda svolítið árfram með það. Ekki þarf mikinn spámann til að spá því að fulltrúar stóru flokkanna í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember verði Hillary Clinton og Donald Trump. Ekki veit ég gjörla hvað skoðanakannanir sýna um þessar mundir um þá hugsanlegu baráttu, en ég veit nákvæmlega að lítið sem ekkert er að marka slíkar skoðanakannanir. Öll kosningabaráttan er eftir og ég geri fastlega ráð fyrir því að Hillary sigri auðveldlega í þeim slag. Ástæðan er einfaldlega sú að Donald er alltof öfgafullur í baráttu sinni og hann á einkum sigra sína hingað til að þakka því að fjölmiðlar hafa mjög haldið á lofti hans helstu firrum og þessvegna er hann vel þekktur eða eigum við að segja alræmdur.

Þó ég reyni eftir mætti að vera jákvæður á ég greinilega í miklum erfiðleikum með það. Það er svo auðvelt að gagnrýna allt og alla en hrósyrði eru fremur hjákátleg nema hjá þeim einum sem gjörþekkja málin. Vissulega gæti ég reynt að hrósa veðrinu, en sennilega er það ekki nærri allsstaðar eins gott og hérna á Akranesi þessa stundina. Með öðru eyranu er ég að hlusta á Edduverðlaunaafheninguna en á sama tíma er ég að horfa hér útum gluggann og sé ekki betur en snjórinn og slabbið að mestu horfið.

WP 20160219 09 55 11 ProAkraneshöllin og Akrafjall.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband