12.2.2016 | 13:54
2418 - Hið eyðileggjandi afl samskiptamiðlanna
Engir efast um að samskiptamiðlar eins og Facebook, Twitter og margir fleiri hafi að mörgu leyti jákvæð áhrif og auðveldi mjög öll samskipti fólks. Þeir hafa líka eyðileggjandi áhrif. Skemmtilegu og jákvæðu áhrifin eru samt langtum augljósari og gúglunaráhrifin hafa mikil og góð áhrif á söguþekkingu almennings. Eflaust er það vegna þess að svör má fá við öllu mögulegu á netinu bara ef menn kunna að leita. Þessvegna virðist þekking almennings fara sívaxandi þó hún geri það kannski ekki. Stjórnmálaáhugi hefur einnig aukist mikið og sennilega hefur spilling minnkað sums staðar. Neikvæðu áhrifin eru líka augljós ef betur er að gáð. Allskyns söguburður, blekkingar og lygi hefur farið mjög vaxandi þar og þó stjórnmálaáhrifin hafi víða orðið töluverð er mikil hætta á bakslagi og ósamkomulagi hjá þeim sem vilja ráða í krafti hinna nýju miðla og netsins í heild. Tölvuvírusarnir eru svo sér kapítuli.
Þó ég hafi kosið Pírata í síðustu kosningum og geri það e.t.v. einnig í þeim næstu álít ég það mikilvægara að halda Sjálfstæðisflokknum í 20 prósentum eða svo, en að halda Pírötum í þeim hæðum sem þeir hafa verið að undanförnu í skoðanakönnunum. Að ganga endanlega frá Framsóknarflokknum er hvort eð er ómögulegt og óþarfi að stefna að slíku. Yfirtaka frjálshyggjuaflanna á Pírötum rænir mig ekki svefni og líklegast er að slíkt fylgi fari til endurfæddrar Samfylkingar fremur en aftur til Sjálfstæðisflokksins. Mannréttindi og ný stjórnarskrá nægir mér alveg í bili. Augljóslega verða Píratar þó að taka ákveðnari stefnu í sumum málum fyrir næstu kosningar. Vinstri grænir eru að verða gamaldags.
Eftir að ég flutti hingað á Akranes er eitt af því sem ég sakna mest frá Kópavogi að geta ekki lengur farið í Kost og fengið mér ódýra ávexti á fimmtudögum. Auðvitað voru það ekki alltaf neinir úrvalsávextir en þeir voru þó ódýrir, því var hægt að treysta. Þegar DV segir að álagning á banana sé 220 % hjá Hagkaupum þá trúi ég þeim næstum því, þó mér finnist þeir yfirleitt ótrúverðugir og hugsa mest um að pranga út þessum snepli sínum.
Jú, jú. OK. Ég er á áttræðisaldri, stórskrýtinn á mörgum sviðum, ómannblendinn og önugur oftast nær. Sem dæmi um það hve skrýtinn ég er get ég nefnt að eitt sinn var ég ásamt allri fjölskyldunni á leiðinni heim í Hveragerði yfir Hellisheiðina eftir að hafa hitt aðra eða aðrar fjölskyldur í Jósefsdal. Þá fékk ég skyndilega þá hugmynd að réttast væri fyrir mig að fara úr bílnum og biðja konuna mína að taka við keyrslunni rétt fyrir ofan Skíðaskálann. Ganga síðan einsamall niður í Klambragilið og fara eftir Reykjadal til Hveragerðis. Þetta framkvæmdi ég samstundis og fjölskyldan hafði ekki önnur ráð en að samþykkja þessa hugdettu mína. Eflaust hefur þetta verið að vori til eða sumri því ég hafði engar áhyggjur af myrkri eða hitastigi. Einu sinni lá reyndar við að ég týndist í myrkri uppi á Henglinum, en það er alltönnur saga.
Einu sinni fór ég gangandi, einsamall að sjálfsögðu, frá rótum Hveradalabrekku og til Nesjavalla. Í Engidalnum var þá nýbúið að reisa einhverskonar gangnamannakofa. (þó gangnamenn þurfi aldrei að gista þar) Þegar ég var nýlagður af stað þaðan, eftir að hafa skoðað kofann vandlega, sá ég í fjarska tvær manneskju á leiðinni á móti mér. Þetta kom mér gjörsamlega á óvart. Ég hafði allsekki reiknað með því að rekast á annað fólk þarna. Mér varð svo mikið um þetta, að ég lagðist niður í lautardrag og velti vandlega fyrir mér hvernig ég ætti að haga mér gagnvart þessum ósköpum. Niðurstaðan varð sú, þó ég hefði nauman tíma, (kannski 10 15 mínútur) að láta bara eins og það væri eðlilegasti hlutur í heimi að rekast á annað fólki fjarri mannbyggðum.
Þegar við mættumst síðan heilsuðumst við bara og buðum góðan daginn án þess að skiptast á fleiri orðum.
Mikið létti mér. Eftir að hafa farið síðan um Marardalinn og skoðað mig vandlega um þar, hélt ég áfram göngunni allt til þjóðvegarins skammt frá Nesjavöllum. Þangað var ég svo sóttur. Fleira bara ekki til tíðinda í þessari ferð. A.m.k. rakst ég ekki á fleira ókunnugt fólk.
Athugasemdir
Einfarar eru ekki allir eins og hittast sjaldan nema á fjöllum.
Ég gékk, fyrir mörhum árum, suður kjöl með bakpoka einan saman (göngutjald ag alles). Síðar var ég rúman áratug í Austur-Asíu á flakki.
Sennilega er ég stórskrítin eins og Sæmi.
Kveðja,
Guðmundur Bjarnason 13.2.2016 kl. 14:03
"Allstaðar er fólk" eins og segir í einu laginu.
Emil Hannes Valgeirsson, 13.2.2016 kl. 16:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.