2412 - Og áfram er bloggað

Af einhverjum ástæðum virðist blogg mitt njóta aukinna vinsælda um þessar mundir. Ekki get ég gert að því. Ekki tel ég mig vera stórorðan í meira lagi, heldur fremur varkáran í orðavali. Það er annars enginn hörgull á stóryrtum bloggurum hefur mér sýnst. Síðasta blogg mitt um morðingjann Atla Helgason hefur verið lesið af talsvert mörgum. Ekki veit ég hversvegna. Einhverntíma virtist mér sem það hefði áhrif á fjölda lesanda að setja nafn einhvers í fyrirsögnina, en hugsanlega er það tóm vitleysa. Auðvitað hef ég bloggað ansi lengi og málfar mitt er e.t.v. svolítið forneskjulegt, en við því er ekkert að gera. Bloggurum hefur stórfækkað að undanförnu og þeir blogga fremur sjaldan. Fésbókin og Twittið er það sem allt snýst um núorðið.

Þó ég minnist oft á pólitík hér á blogginu, er hún ekkert aðalatriði hjá mér. Mér finnst ég geta skrifað um hvað sem er. Rithöfund eða skáld tel ég mig þó allsekki vera. Skáldsögu gæti ég til dæmis aldrei skrifað því ég mundi örugglega allsekki endast til þess. Bloggin kann ég nokkuð vel við því þau þurfa að vera fremur stutt og auk þess eru þau a.m.k. hjá mér ávallt sannleikanum samkvæmt, þó Íslendingar séu taldir miklir sagnamenn. Vel má tæpa á ýmsu en varast ber að vera óhóflega langorður.

Aðalgallinn sem ég sé á því sem skrifað er og kommentað á netið (fésbókina) er hvað það er oft illa lesið yfir. Óhjákvæmilegt er að allskyns innsláttarvillur slæðist með þegar skrifað er, en helst af öllu þarf að útrýma þeim. Þeir sem sjaldan skrifa (og aldrei blogga) virðast öðrum fremur eiga það á hættu að verða óþarflega stórorðið í innleggjum sínum.

Mikið er deilt um listamannalaun þessa dagana. Eiginlega hef ég ekkert til þeirra mála að leggja annað en það að ég tel mig ekkert verri í að njóta listar en hvern annan. Auk þess þekki ég enga sem slíkt laun fá. Netið hefur samt breytt ýmsu í þessu sambandi og ekki er að sjá að allir listamenn sætti sig við þær breytingar. Sama má auðvitað segja um útgefendur allskyns listar. Sumir listamenn eiga það líka til að fara inná svið sem þeir ættu að forðast. Þekkt nöfn geta samt sem best verið nokkurs virði.

Enn er ég ekki farinn að hafa við með að taka myndir. Verð þessvegna að setja eina gamla. Kannski er það vegna myndleysis sem undanfarin blogg hafa notið óeðlilegra vinsælda.

WP 20150120 13 56 36 ProEinhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband