2406 - Mér finnst

Mér finnst umræðan hafa einkennst of mikið af „mér finnst“. Þessi djúpa speki er úr útvarpi allra landsmanna. Og ekki var að heyra að þetta ætti að vera brandari. Sem það þó óneitanlega er.

Var áðan að sjá að einhverjir hafa orðið til þess að setja athugsemdir við nýjustu blogg-greinina mína. Það er mjög gott. Ég var næstum búinn að gleyma að það væri hægt. Ég er líka búinn að koma mér upp nokkrum myndum svo ég ætti ekki að þurfa að treysta á gamlar myndir eins og að undanförnu.

Í fréttaleysinu er verið að fárast yfir því hvað fangar á Kvíabryggju borði. Eins og einhverjum komi það við. Ekki stóð til að svelta alla þar. Þetta er dæmigert fyrir janúar. En að viðtal við fangana þara þurfi að vera fyrsta frétt á Stöð 2, án þess að þeir hafi frá neinu sérstöku að segja, finnst mér dálítið langt gengið. Svo eru lögregluþjónar óánægðir í sinni karlrembufýlu. Spurning samt hvort lögreglustjórinn nýi hefur nægilegt bein í nefinu til að standast þetta. Í kuldanum og fréttaleysinu gerist heldur fátt. Jafnvel ferðamenn keyra lítið útaf. Eiginlega ættum við Íslendingar að leggjast í dvala í mesta skammdeginu. Til marsloka eða svo.

Hvað er það sem er svart þegar það er nýtt, rautt þegar það er notað og hvítt þegar því er hent? Svar óskast með fyrstu vorskipum og það mætti gjarnan fylgja með hvað þar er sem þú átt, en flestir aðrir nota miklu meira en þú. Við þrautir sem þessar eyddu Íslendingar forðum löngum skammdegiskvöldum, eins og t.d. með eggjagátuna um fullt hús matar sem finnast hvergi dyr á, o.s.frv. Hróðmar kennari tók saman bók um þetta sem við eignuðumst heima og eyddum löngum stundum yfir. „Margt er sér til gamans gert.“ Minnir mig að hún hafi verið kölluð.

Nú skemmta flestir sér yfir fésbókinni og twitter og reka upp hrossahlátur og slá sér á lær yfir því hvað margt heimskuþvaðrið er sent þangað. Samskiptatæki er þetta þó ágætt og kallað „samskiptamiðlar“ í miklum vandlætingartón í útvarpi og sjónvarpi. En þau fyrirbrigði eru óðum að missa þau tök sem þau höfðu áður á skoðunum fólks. Að fólk borgi peninga fyrir daglegar prentaðar fréttir og þessháttar er alveg að hverfa. Lesefnið er orðið svo mikið að ruslagámarnir stynja undan erfiðinu. Útaf þessu m.a. tregðast ég enn við að gerast áskrifandi að „Skessuhorni“ þó mér hafi skilist að það sé á margan hátt vandað blað.

WP 20151005 09 13 35 ProAkranes.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband