7.1.2016 | 04:59
2404 - Sannleikurinn um Bessastaði
Ekki má Uninn sjálfur segja að hann hafi sprengt vetnissprengju, það er bara strax farið að efast um það. Hann má varla segja að hann hafi skitið í klósettið. En það getur Simmi alveg.
Já, bloggpistlarnir hjá mér eru orðnir fjandi margir. Einhverra hluta vegna hef ég alla þessa tíð (alveg frá 2006 minnir mig) engu logið, heldur ávallt sagt satt frá öllu. A.m.k. að mínum eigin dómi. Vissulega hef ég sagt frá ýmsu bæði frá sjálfum mér og öðrum. Sumt af því kann að hafa verið lygi. En vísvitandi hef ég aldrei logið neinu í þessum bloggum mínum. Ekki segi ég þetta vegna þess að ég ætli að taka mér eitthvert sérstakt skáldaleyfi núna. Nei, ég hef ekkert slíkt í hyggja. Samt sem áður fannst mér rétt að hnykkja á þessu. Auðvitað hef ég oft lesið allskyns lygi (sem venjulega er kölluð skáldskapur). Ég hef samt aldrei fundið hjá mér hvöt til að leggja lóð mitt á þær vogarskálar. Þegar ég var í Barnaskóla skrifaði ég stundum sögur sem voru tóm lygi. Man vel eftir einni sem fjallaði um það að ég hefði mætt á Breiðumörkinni ljóni á stærð við belju og það hefði ráðist á mig en ég bara stungið hendinni upp í það og í gegnum það allt og komið hendinni út um endann á því og gripið í rófuna og snúið því við. Kennaranum þótti þetta ákaflega fyndið og mig minnir að hann hafi lesið söguna upp og hrósað henni mikið. Samt sem áður hefur skáldskapur aldrei legið fyrir mér. Það litla (eða alltof mikla þó) sem ég hef skrifað um dagana hefur verið sannleikanum undirorpið. Þó hef ég auðvitað sagt frá honum á þann hátt sem mér sýnist. Og leynt sumu. Verst er að skrifa um aðra. Maður veit aldrei á hverju maður á von frá þeim.
Kannski er það einmitt vegna þessarar sannleiksástar minnar sem ég hef ekki orðið vinsælli fyrir skrif mín, (hef skrifað ýmislegt annað en þessi blogg) en raun ber vitni. Sumt af því sem ég hef skrifað um hefði sennilega orðið mun betra með svolítilli skreytni. Af hverju er ég að fjölyrða um þetta hér og nú? Mér bara datt það allt í einu í hug. Ég er nefnilega andvaka og klukkan er að verða fimm.
Eitthvað smávegis minnir mig að ég hafi skrifað um væntanlegar forsetakosningar um daginn. Sennilega er vel hægt að bæta einhverju við þær hugleiðingar. Ég átti svosem von á því einsog margir aðrir að ÓRG mundi ekki bjóða sig fram einu sinni enn. Af þeim sem minnst hefur verið á í sambandi við væntanlegt forsetaframboð líst mér einn best á Stefán Jón Hafstein. Aðallega er það vegna þess að ég kannast örlítið við hann. Man að hann hóf eitt sinn vinnu á Stöð 2 og hafði þá aðsetur í herbergi við hliðina á mínu. Ekki þekki ég hann samt að neinu ráði, en stjórnmálaskoðanir hans falla nokkuð vel að mínum.
Einhver hefur sagt að forsetaframbjóðendur mættu ekki vera fleiri en eitthvað ákveðið. Þar var held ég miðað við að ekki væri hægt fyrir neina að mæla með fleiri en einum slíkum. Þessu er ég alfarið andvígur. Að sjálfsögðu ætti að vera leyfilegt að mæla með mörgum. Því ekki það? Enginn hefur samt ennþá beðið um meðmæli mín en þau ættu að verða auðfengin. Og þegar ég mæli með þeim þrjúhundruðasta, skal ég láta forsetaritarann vita.
Rís þú unga Íslands merki,
þrátt fyrir verki.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.