2402 - Bessastaðir

Eitthvað verð ég víst að blaðra. Lengist nú tíminn á nýju ári og ég hef ekki bloggað að ráði á því. Verst að ég skuli ekki hafa neitt að segja. Mér leiðist ákaflega að endurtaka í sífellu það sem aðrir hafa sagt og sömuleiðist er ég á móti þessum sífellda fréttaflutningi á blogginu. Aðalvinna fréttamann virðist vera að vaka nógu vel yfir bloggum, fésbók, twitter og þessháttar og ekkert virðist vera frétt nema það hafi fyrst komið fram þar. Að sumu leyti er þetta auðvitað ágætt en að hinu leytinu hundleiðinlegt því á annað en það sem fréttafólkið hefur áhuga á er ekki minnst og það getur sem hægast farið framhjá manni.

Hlustaði af gömlum vana á nýárávarp forsetans. Man vel eftir ávörpunum hjá Kristjáni Eldjárn sem véraði sig og ossaði í bak og fyrir þó allir aðrir væru löngu hættir því. Minnir að ræðurnar hjá honum hafi samt verið ágætar og þjóðremban var a.m.k. allt öðruvísi. Nú virðist ekki að marka nokkurn hlut nema það sé a.m.k. heimsmet. Þannig er það hjá Sigmundi og eftir höfðinu dansa limirnir. Sigmundur hugsar bara um sjálfan sig, en Bjarni um Sjálfstæðisflokkinn.

Ekki skil ég í þeim sem eyða offjár í að sprenja í loft upp gamla árið. Mér finnst nær að eyða þeim peningum í matvæli og aðrar nauðsynjar. Björgunarsveitirnar spjara sig. Margir afsaka sig þó gagnvart sjálfum sér og öðrum með því að þeir séu að bjarga þeim. Með þessari heimskulegu ákvörðun eru þeir þó fyrst og fremst að styðja við ríkisstjórnina. Hún þarf þá engu að eyða í björgunarstörf.

Auðvelt er að gagnrýna. Erfiðara að sjá það jákvæða. Þó margir verði af aurum apar er samt greinilegt að meiri peningar eru í spilinu en verið hafa frá hruni. Verst að við ellibelgirnir fáum lítt að njóta þeirra og engan höfum við verkfallsréttinn, sem hægt væri að veifa eins og slöngvivað yfir höfði sér. Ekki hafa lögreglumenn hann og samt stunda þeir veifingarstarfsemi eins og ekkert sé. Auðvitað gætum við gamlingjarnir gert það líka.

T.d. gætum við hæglega tafið fyrir ýmsu og valdið allskyns vandræðum ef við kærðum okkur um. Jafnvel látið Sigumund og Bjarna hlusta á okkur. Þingið ræður greinilega engu en Sigmundur og Bjarni öllu. ÓRG vill ráða hinu og þessu en verður í aðalatriðum að sætta sig við allan fjárann.

Ég er alvarlega að hugsa um forsetaframboð. A.m.k. að hugsa um það, enda held ég að margir séu að því þessa dagana. Nær hinu venjulega held ég varla að komist verði en með því að kjósa mig til starfans. Eiginlega er mér slétt sama um hvort þetta er gott djobb eða ekki. Bara ef ég fæ kaupið mitt.

Læt ég svo lokið þessum fávíslegu hugleiðingum en vona að árið 2016 verði gott og gjöfult fyrir sem flesta, nema hin helvítin.

IMG 1281Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband