1.1.2016 | 12:24
2401 - Snjólétt er á Akranesi
Var búinn að skrifa eitthvað sem ég ætlaði að senda í eterinn á síðasta ári, en ætli ég noti það ekki bara til að hafa nýársbloggið mitt dálítið veglegt.
Ég geri mitt til að minnka áramótakveðjufarganið og óska engum gleðilegs árs. Finnst líka dálítið seint að þakka fyrir viðskiptin á gamla árinu núna. Nær hefði verið að gera það þegar þau áttu sér stað. Árið heilsar með kulda og snjó, sýnist mér. Annars svaf ég óvenju lengi núna.
Veit ekki hversvegna í ósköpunum síðasta blogg hjá mér var að hluta til rautt. Ekki var það ætlunin.
Snjólétt með afbrigðum virðist mér vera hér á Akranesi (knock on wood). Kannski er vindur í meira lagi en það gerir nú lítið til. Trén hér í kring mættu að vísu alveg vera stærri og þá kann að vera að skjól yrði af þeim. Umferðin er bara alveg eins og hjá siðuðu fólki. Ekkert lík því sem tíðkast á Reykjavíkursvæðinu.
Þar er engu líkara en allir séu að farast úr æsingi og bílaröðin er óslitin a.m.k. á aðalleiðum. Út fyrir þær treystir maður sér helst ekki því þá á maður á hættu að lenda í hringtorgavillu og vita þá ekkert hvar maður er staddur eða hvert maður ætlar. Kenningin um að hringtorgin séu upphaflega blettir eftir kaffibolla er alls ekki fráleit. Fjöldi hringtorga á höfðuðborarsvæðinu er legíó og ég ekki frá því að bæjarstjórnin hér hafi einhverntíma fengið snert af hringtorgasóttinni. Venjuleg umferðarljós eru þó ekki mörg hérna og erfitt að villast.
Ég á því ekki að venjast núorðið (á þessum fésbókar og twittertímum) að athugasemdir séu gerðar við bloggið mitt. Það er ótrúlega hressandi að fá slíkt. Ég svaraði áðan þessum athugasemdum og það er alveg rétt að ég lít á alla trú sem nokkurs konar hindurvitni. Ber samt virðingu fyrir skoðunum fólks í þessu efni. Móðir mín og móðuramma voru að ég held báðar mjög trúaðar og boðskapur margra vísna og sálma sem maður var látinn læra þegar maður var barn, hefur sennilega síast meira og minna inní mig samt. Það er langt frá að ég telji kristna fræðslu hafa yfirleitt valdið miklum skaða. Samt eru allar þessar biblíusögur óvísindalegar í meira lagi í mínum augum. Allan ofsa í trúarlegum efnum tel ég þó vera til skaða.
Nú er ég farinn að blogga nokkuð reglulega aftur sýnist mér. Kannski fækkar lesendum mínum við það. Við því er ekkert að gera. Ég reyni bara að hafa þau ekki of löng. Erfitt hugsa ég að það sé að fella mín blogg í einhvern ákveðinn flokk, þó kann hann að vera til. Stöku sinnum les ég gömul blogg eftir sjálfan mig og undrast yfirleitt hve vel þau eru skrifuð. Oftast nær er samt ekkert að marka fyrirsögnina. Moggabloggsguðirnir heimta bara einnhvað slíkt. Myndavélina tekur ekki að virkja fyrr en dagur fer aðeins að lengjast. Skammdegið er erfitt.
Sagt var frá því í einhverjum miðli, að 21 árs gamall maður hefði drukknað við að reyna að synda sem lengst í kafi (100 m) Sjálfur man ég eftir því að hafa synt í kafi 4 ferðir þversum í Laugaskarði og spyrt mér af stað í fimmtu ferðina (Samtals rúmlega 50 m) Svo gat ég líka haldið niðri í mér andanum í tvær og hálfa mínútu. Einu sinni (líklega á Vífilsgötunni) var ég að grobba af þessu og Benni sem er keppnismaður hinn mesti ákvað að gera betur og hélt niðri í sér andanum í þrjár og hálfa mínútu, ef ég man rétt. Hann var líka hálfmeðvitundarlaus fyrst á eftir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.