2397 - Rafveitusögur o.fl.

Einu sinni var rafmagnslaust í viku hjá okkur þegar ég bjó að Vegamótum á Snæfellsnesi. Engum þótti það sérlega mikið enda voru allt aðrir tímar þá. Ætli það hafi ekki verið svona í kringum 1970. Þá var nýbúið að setja olíubrennara í húsið uppfrá þar sem ég bjó (áður hafði olían bara lekið inn). Ég bölvaði því oft mikið því áður var þó a.m.k. hægt að halda húsinu heitu þó rafmagnið færi. Stundum gat að vísu verið svolítið vesen að kveikja upp aftur ef eldurinn slokknaði. Þá vildi olían festast í sótinu og búast mátti við talsverðum skruðningum þegar reynt var að kveikja aftur. Man t.d. eftir að einu sinni logaði uppúr strompinum eins og hann væri kerti. Í vikulanga rafmagnsleysinu var reynt með prímusum og þessháttar að halda sæmilegum hita í svona einu herbergi. Man að ég setti frostlög í klósettið því það var frost þar inni.

Annars veit ég vel að viðgerðir á háspennulínum í hávaðaroki eru ekkert auðveldar. T.d. fylgdist ég alllengi með tveimur mönnur og átti annar að klifra upp í staurinn en hinn að fylgjast með. Alltaf þegar hann leit upp greip vindurinn hann því jafnvægið var ekki eins gott þegar hann horfði uppá við. Að lokum fann hann rétta ráðið, en það var að leggjast á bakið á jörðina.

Sennilega er útlendingastofnun svo trausti rúin núna að trúlega verður talið nauðsynlegt að skipta um forstöðumann þar. Hugsanlega verður stofnunin lögð niður eða henni stórlega breytt. Nú er tækifærið, Sigmundur. Á margan hátt er Sigmundur misheppnaður forsætisráðherra. A.m.k. hefur hann ekki útlitið með sér. Kannski vill hann samt vel. Eins er með Bjarna Ben. Hann er alls ekki sá forystumaður sem sjálfstæðismenn gjarnan vildu hafa. Næstu þingkosningar verða forvitnilegar, á því er enginn vafi. Læt ég svo lokið þessum pólitísku hugleiðingum.

Í æsku var mér innprentuð heimspekin sem finna má í heilræðavísum Hallgríms Péturssonar. Þeir sem áhuga hafa geta eflaust fundið vísurnar á netinu. Bara að gúgla einhverja hendingu sem munað er eftir. T.d. „Ungum er það allra best...“

Þetta var maður í skóla þess tíma látinn læra utanbókar og ég þorði ekki annað en að hlýða því. Hinsvegar hefur mér alltaf leiðst passíusálmarnir þó ég hafi alla tíð haft talsvert álit á séra Hallgrími og ekki síður á Tyrkja-Guddu. Það er auðvitað ekki í stíl ungu kynslóðarinnar að ræða á þennan hátt um trúarboðskap og fólk sem uppi var árið sextánhundruð og súrkál. Reyndar er það af allt öðrum ástæðum sem ég er eiginlega alveg trúlaus. En förum ekki nánar útí það að sinni, eins og Guðmundur heiti ég Ólafsson hefði sagt.

Mest eru það svona fjórir veruleikar sem ég þekki að einhverju ráði. Auðvitað þekki ég þann íslenska best og held að hann sé bestur. Efast samt um að svo sé og á margan hátt sé sá skandinavíski betri. Sá Evrópski er e.t.v. á margan hátt ágætur og á flestan hátt betri en sá fjórði sem er sá Bandaríski. Mér finnst nær að velta hlutunum fyrir sér á þennan hátt, sem ég vil telja jákvæðan nokkuð, en að leitast í sífellu við að reyna að finna hverjum sem er af þessum heimum sem flest til foráttu. Miklu máli skiptir eflaust hvaða þjóðfélagshópi maður tilheyrir, en í aðalatriðum finnst mér þetta vera svona.

Svo eru fyrir utan þessa heima fjölmargir sem maður hefur litla reynslu af. Magrir þeirra gætu vel verið góðir og jafnvel betri en sá íslenski, en mér finnst heldur lítið til flestra þeirra koma og er þar eflaust um að kenna þeim fordómum sem fjölmiðlar íslenskir hafa innprentað mér í gegnum árin. Þó Ísland sé veðurfarslega tæplega byggilegt er ekki með öllu hægt að mótmæla því að umhverið er kannski sterkasti þátturinn í búsetuvali því sem hér hefur verið lýst. Það getur samt breyst, einkum ef kólnar verulega.

IMG 0595Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband