2395 - Snjór

Þó víðast hafi snjóað talsvert að undanförnu er svotil snjólaust núna hér á Akranesi og þó ég sé aldraður orðinn þá virðist ég ekki þurfa að berjast við árans hálkuna þó ég bregði mér út. Þegar jólasnjór og annar snjór er dásamaður finnst mér þurfa að hugsa til okkar gamlingjanna sem sjáum fátt annað í snjónum en væntanlegt krap og ísingu.

Þó þetta blessað blogg sé orðið ansi stopult hjá mér eru samt einhverjir sem halda tryggð við mig. Lesa semsagt bloggið mitt, eða kíkja a.m.k. á það. Á meðan svo er dettur mér ekki í hug að halda að ég sé vitlausari en gengur og gerist. Óttalega finnst mér sumt af því vitleysislegt sem ég kemst ekki hjá að sjá á fésbókinni. Aldrei þreytist ég á að hallmæla henni. Þó get ég ekki hjá því komist að viðurkenna suma kosti hennar. En hættum að ræða um þennan bloggóvin minn nr. 1.

Ég get ekki annað en litið niður á þá sem greinilega eru vitlausari í stafsetningu en ég. Þó veit ég vel að sá mælikvarði er langt frá því að vera einhlítur. Stórgáfaðir og snjallir einstaklingar geta sem hægast verið afleitir í stafsetningu.

Að koma sæmilega fyrir sig orði í rituðu máli er bara einn hæfleiki af ákaflega mörgum. Vilji maður halda áfram að telja upp svipaða hæfileika getur óskeikulleiki í stafsetningu hæglega komið næst. Að færa hugmyndir sínar í orð gæti sem best verið sá þriðji og þannig mætti lengi telja.

Fór um daginn í Sjóvár-umboðið hérna og skilaði árekstrarskýrslunni, en kom því ekki í verk að fara á verkstæðið og panta tíma fyrir réttinguna. Bakkað var á mig þar sem ég var að keyra nýja bílinn okkar við Hagkaup í Garðabæ.

Mikið er blaðrað á alþingi um þessar mundir og það er greinilegt að stjórn og stjórnarandstaða geta sameinast um fátt. Þó eru þessir aðilar greinilega sammála um að halda áfram að draga úr virðingu alþingis með kjánalegri hegðun. Ekki er ég þó viss um að sú virðing sem eitt sinn var borin fyrir alþingi fari beina leið til ríkisstjórnarinnar. Óvinsældir hennar aukast sífellt.

IMG 1339Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband