2388 - París o.fl.

Ekki var það nú svo gott að ég gæti sérað umsvifalaust síðasta bloggið mitt, og ég ætla ekkert að reikna með því að geta það á næstunni. Kannski lagfæri ég eitthvað línubilin og athuga betur með myndirnar, en ég er ekkert viss um það. Ekki virðist mér það neitt ákaflega flókið að skoða Moggabloggin, þó ég viðurkenni fúslega að ekki er lengur sama áherslan á þeim hjá Moggaguðnum Davíð eins og mér finnst að ætti að vera.

Mikið vildi ég að það væri hægt að hætta við jólin, eða að minnsta kosti að fresta þeim svolíkið. Þessi ósköp eru að skella á. Krakkarnir eru sífellt að læra betur á þetta. Ég er ansi hræddur um að ýmsa hausa sé verið að brjóta í smátt til að finna réttu jólagjafinar. Svo getur verið að þessi jól verði alvöru fésbókarjól og ég veit bara ekki hvernig þau eru. Vafamálið með jólasveininn er nú komið á leikskólana. Þetta grímuklædda eða grímulausa ofbeldi allstaðar á eftir að hefna sín.

Selfie-stangir eða svonefnd kjánaprik eru mjög vinsæl um þessar mundir og er það engin furða. Hver ætti svosem að endast til þess annar að taka myndir af þeim sem umfram allt vilja vera á sem flestum myndum. Sumir eru víst þannig er mér fortalið. Ekki sel ég það dýrara en ég keypti það, en ótrúlegt er það mjög. Þeir sem þessi svonefndu kjánaprik eiga geta víst tekið myndir af sér endalaust. Og gott ef þeir gera það ekki. Kannski eru þau langmest í búðum og auglýsingum og það ætti að koma í ljós, þó síðar verði. Ekki hef ég kynnst neinum sem hefur sagst eiga svona grip. Góða fólkið hallmælir þeim mjög eins og svo mörgu öðru. „Stjörnulögfræðingur“ er t.d. á góðri leið með að verða skammaryrði, þó fáa hefði grunað það í gær eða fyrradag.

Fékk slatta af skákbókum um daginn og er núna að lesa bækur eftir Gennady Sosonko. Hann er að mörgu leyti ágætur rithöfundur. Svo er líka þarna bók þar sem getið er um öll skákmót og þessháttar á hverju ári á tuttugustu öldinni. Það sem gerðist í skákinni svona á árunum 1950 til 1980 er mér einna efst í huga og af einhverjum ástæðum finnst mér mest gaman að lesa um það tímabil.

Í sambandi við hryðjuverkin í París og hernað íslamska ríkisins dettur mér í hug að sú hugmynd að stjórnendur þar séu yfirleitt fyrrverandi herforingjar í írakska hernum og þar með fyrrum handbendi Saddams Hússeins einræðisherrra í Írak virðist eiga auknum vinsældum að fagna. Þeir menn eru til sem halda slíku fram og þar með að ábyrgð Bandaríkjastjórnar á stöðu heimsmála sé talsverð.Ýmsar ástæður valdi því síðan að íslamska ríkið beiti sér ekki meira en raun ber vitni gegn Bandaríkjunum. Frambjóðandinn frækni og ríki sem Trump nefnist hefur t.d. haldið því fram að ef Parísarbúar hefðu allir verið þrælvopnaðir hefðu engin vandræði orðið þar.

Fari svo að endurvakin verði starfsemi Akraborgarinnar að einhverju leyti gæti vissulega margt breyst hér á Akranesi. Akratorg, sá forngripur sem það í rauninni er, er nýbúið að fá smáandlitslyftingu og er ekki lengur svo galið. Gamli bærinn á Akranesi lítur út fyrir að henta túristum ágætlega. Þær nýtísku tilraunir sem gerðar hafa verið austan við Stillholt eru alveg misheppnaðar. Þær þýða þó að íbúar á Akranesi eru mun fleiri en annars mundi vera. Auðvitað mætti samt gera svæðið í kringum safnasvæðið sæmilega túristavænt og jafnvel einnig skógræktina þar skammt frá og líka Langasand alveg út að Sólmundarhöfða. Ef sementsverksmiðjusvæðið verður gert að afgirtu ríkramannalandi eins og ráðagerðir eru uppi um er hlutverki Akraness sem ferðamannastaðar endanlega lokið.

Eitt það alvarlegasta sem steðjar að Íslandi um þessar mundir er að „spekilekinn“ svonefndi er sennilega að aukast. Yfirvöld hafa samt engar áhyggjur af því. Völd þeirra munu nefnilega frekar vaxa við það en hitt. Niðurstaða næstu almennu þingkosninga gæti samt komið þeim á óvart.

IMG 2377Kanína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband