2383 - Frissi feiti

Eitt af því sem komið hefur mér svolítið á óvart í bloggstandinu er að aldrei skuli verða neinn hörgull á því sem maður bloggar um. Þó blogga ég lítt um fréttir og söguleg efni en þeim mun meira um blogg og fésbók. Eiginlega er það alveg nóg. Það er endalaust hægt að blogga um slíkt. Skárra væri það nú.

Ef ég væri ekki skráður á fésbók, þá er eins víst að ég væri skráður á twitter og ekki væri það skárra. Einu sinni var ég vel á veg kominn með að skrá mig líka þar en tókst með herkjum að halda aftur af mér. Afleiðingin er samt sú að ég fæ alltaf annað kastið ítrekanir og áminningar frá þeim. Sama er að segja um einhverja fleiri samfélagsmiðla. Man bara ekki hvað þeir heita. Bloggið og fésbókin nægja mér alveg. Upplagt að hafa síðu eins og Boðnarmjöðinn þar sem maður getur hent frá sér vísum og gleymt þeim svo. Engin þörf á afriti.

Sennilega fer ég alltof sjaldan á netpóstinn minn. Það er mest vegna þess að pósthólfið fyllist fljótlega af nígeríubréfum, auglýsingum og allskyns rusli á fremur stuttum tíma. Auðvitað ætti ég að fá mér nýtt netfang en ég nenni því bara ekki. Mér finnst illa komið fyrir tölvupóstinum, sem einu sinni átti allan vanda að leysa. Ætli maður verði bara ekki að snúa sér að sniglapóstinum aftur.

Einu sinni hélt ég að kreik væri það sama og krókur. Vísan „Allir krakkar, allir krakkar“, var oft sungin í mínu ungdæmi. Í vísunni er talað um „að lyfta sér á kreik“. Þetta kreik sem þar var talað um hélt ég endilega að væri krókur og varaðist mjög að taka undir þetta.

Í fyrsta skipti sem ég sá með eigin augum hve farsímarnir eru orðnir mikill hluti af lífi fólks var í Borgarnesi fyrir svona ári síðan. Þar var einhvers konar skemmtun þar sem fólk af ýmsu þjóðerni var að bjóða vörur sem voru einkennandi fyrir viðkomandi land. Á eftir skemmti einhver Frissi feiti (eða einhver með álíka nafn sem allir áttu víst að kannast við, en ég hafði aldrei heyrt áður.) Þegar hann stökk útá gólfið og fór að dansa og syngja þyrpust allir að með farsímana á lofti til að taka myndir. Reyndar var hávær músíkin sem fylgdi þessu hreint út sagt hættuleg (hugsa ég).

Ingibjörg, Sigrún og Hörður komu hingað áðan og höfðu ekki séð íbúðina okkar fyrr. Ætluðu síðan til Atla, eins og lög gera ráð fyrir. Um þessa heimsókn er ekkert sérstakt að segja en ég nota þetta blogg semsagt sem nokkurskonar dagbók að þessu sinni, þó ég geri það ekki altjént.

Nú er ég semsagt kominn með nýjar myndir sem ég þarf endilega að koma í umferð sem fyrst svo ég geti aftur farið að nota gamlar myndir. Það var svo assgoti þægilegt. Þessvegna blogga ég svona ótt og títt núna. Væri kannski hægt að segja að ég bloggaði eins og óð fluga? Nei, ekki finnst mér það. Óðar flugur eru allt öðruvísi.

Það er ekki hægt að bíða eftir sólinni í hvaða vitleysu sem er. Mér er engin launung á því að mér finnst þessi árlega suðurganga sólarinnar hin mesta vitleysa. En maður verður víst að sætta sig við það. Vaknaði fyrir sjö í morgun og dreif mig í morgungönguna. Undanfarið hef ég verið að rembast við að bíða eftir birtingu en nú nenni ég því ekki lengur. Héðan í frá er það mín eigin klukka sem ræður.

IMG 2288Bjarnabúð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband