48. blogg

Það er engin þörf  að kvarta / þegar blessuð sólin skín.

Jú, annars; ég þarf  að kvarta undan sólinni. Hún skín hérna beint inn um gluggann þar sem ég sit við tölvuna og veldur því að ég sé ekki almennilega á skjáinn. Auðvitað gæti ég reynt að færa tölvuna eða breiða fyrir gluggann, en ég er of latur til þess.

Þetta var í morgun. Nú er komið kvöld og engin sól til að trufla mig. Lauk í dag við að þýða tvö Atlas skjöl um Tyrkland. Nú er bara yfirlestur eftir og ég hef alveg frammá sunnudagskvöld til að klára hann.

Maður er það sem maður segir og gerir. Í bloggheimum eru flestir aðeins það sem þeir blogga. Nema náttúrulega þeir sem eru landsþekktir fyrir eitthvað annað líka. En er maður sitt síðasta blogg eða summan af öllum sínum bloggum? Kannski er þessu best svarað með spurningu: Eru einhverjar líkur til þess að sá sem uppgötvar nýtt blogg sem honum finnst sæmilega áhugavert nenni að færa sig langar leiðir aftur í tímann?  Ég held varla.

Sumir bloggarar stunda það að vísa í sín fyrri skrif og það er að mörgu leyti sniðugur kostur. Örugglega betri en sá að endurtaka sig í sífellu.

Þó ég geri ekki mikið af því að segja hér frá öðrum bloggum sem ég les fer ekki á milli mála að það hlýt ég að gera. Satt að segja les ég blogg orðið mun meira en flest annað. Vefmiðlarnir koma sennilega næst þar á eftir og svo fylgist ég talsvert með sjónvarpinu. Dagblöðin sé ég ekki nema öðru hvoru og er að mestu hættur að nenna að lesa þau.

Nú er ég sennilega farinn að endurtaka mig svo það er best að hætta.

 

Og þó. Árið er 1972. Ég er staddur í Kaupmannahöfn í minni fyrstu utanlandsferð á ævinni. Daginn áður höfðu Danir greitt atkvæði um það hvort landið skyldi ganga í Efnahagsbandalag Evrópu. Við erum stödd í stóru deildarskiptu verslunarhúsi (hugsanlega Magasin du Nord) og á einum stað hefur hópur fólks safnast saman í kringum sjónvarpstæki til að fylgjast með einhverju sem þar er verið að segja frá.

Það hafði legið fyrir strax kvöldið áður að inngangan í Efnahagsbandalagið hafði verið samþykkt, svo ekki var fólkið að fylgjast með fréttum af því.

Svar við því hvað fólkið er að gera þarna fáum við fljótlega þegar strákur einn lætur okkur fá bréfmiða sem merktur er Politiken. Á honum ofanverðum stendur með nokkuð stóru letri: „Löbeseddel" og fyrir neðan það með ekki minni stöfum: „Krag gaar av".

Þarna var semsagt skýringin komin. Fólkið var að fylgjast með fréttum um afsögn Jens Otto Krag sem verið hafði forsætisráðherra Danmerkur allt þar til honum hafði tekist það ætlunarverk sitt að koma Dönum í Evrópusambandið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband