3.11.2015 | 16:06
2380 - Undir læknishöndum
Mér skilst að það sé mikil eftirspurn eftir læknishöndum. Svo mikil að líksnyrtar og aðrir í útfarariðnaðinum þurfi að vara sig og halda í allar hendur. Ekki bara sínar eigin heldur líka af líkum sem þeir fá til meðferðar. Sjúkraflutningamenn nota þetta mikið og í rauninni ættu allir að eiga svona til að leggja yfir þá sem illa slasast. Jæja, þetta er víst ekkert fyndið. Það má eiginlega ekki gera grín að því sem sorglegt er, segir Pétur. Svona gæti ég þusað endalaust. Skipbrotsmaðurinn sem át brauðið endalausa er ekki einn um það. Margir reyna að skera endana af fyrst. Það virðist vera sameiginlegt einkenni allra betri bloggara (og vitanlega vil ég teljast til þeirra) að skilja eða misskilja sem allra flest orð. Helst þau reyndar sem engir aðrir misskilja.
Nú er Wordið byrjað að stríða mér svolítið. Kannski læt ég mér það í léttu rúmi liggja. Ef ekki vill betur setur appið eða forritið skjölin þar sem því finnst þau eiga heima. Veit ekki af hverju bloggskjalið mitt er allt í einu komið á desktoppinn. Svo er uppsetningin talsvert frábrugðin því sem ég átti að venjast. Hver veit nema það sé í góðu lagi? Ekki tjáir að deila við dómarann. Eða í þessu tilfelli Wordið sjálft.
Nú eru miðilsfundir mikið í tísku. Aldrei hef ég orðið svo frægur að komast á slíkan fund, enda er hætt við að ég yrði ekki nógu alvarlegur þar. Þó er ég með alvarlegustu mönnum. Eiginlega get ég alveg tekið undir með Harmageddon-manninum sem ekki var hrifinn af svona fjárplógsstarfsemi. Vel leist honum samt á miðilinn og steig óspart í vænginn við hana. Hananú sagði hænan og lagðist á bakið.
Hér kemur fésbókarinnleggið. Alveg er hún gengdarlaus frekjan í fésbókinni. Ekki veit ég hve oft hún er búin að spyrja mig um skólagönguna og allskyns spurningum getur hún fundið uppá. Sennilega eru allar þessar upplýsingar sem safnað er seldar hæstbjóðanda. En hvað slíkar upplýsingar eiga að fyrirstilla er mér hulin ráðgáta. Fyrir löngu er ég hættur að trúa tölvunni fyrir nokkrum sköpuðum hlut, einmitt vegna þessarar yfirþyrmandi njósnastarfsemi. Hvað veit ég nema búið sé að finna upp forrit sem geta fundið allt það sem fyrirspyrjendum getur dottið í hug að spyrja um. Ef ég ætti slíkt forrit mundi ég endilega vilja láta það hakka í sig sem mestar upplýsingar þó flestallar þeirra væru vitagangslausar.
Ég hef verið að spekúlera í því hversvegna mér er svona illa við fésbókina. Sennilega er það vegna þess að mér gegnum hálfilla að skilja hana og læra á hana. Svo er líka möguleiki að þetta forrit sé meingallað og hættulegt. Hin nýju samfélagsmiðuðu forrit munu eflaust áður en lagt um líður ganga af fésbókinni dauðri. Þangað til ætlar Sykurbergur áreiðanlega að reyna að græða eins mikið á henni og hægt er. Líklega er þó Twitterinn ekkert betri. Ég álpaðist til að skrá mig á einhvern lista þar og síðan hef ég engan frið haft fyrir allskyns tilboðum þaðan. Sama er að segja um LinkedIn. Á einhverjum lista hlýt ég að vera það því ég er sífellt að fá eitthvað þaðan. Öfunda þá sem fá bara fáeinar skjáfyllur á dag í tölvupóstinn sinn.
Sko. Ég skil ekki hvernig nauðasamningsleiðin og skattaleiðin eru jafngildar. Ef önnur er 450 milljörðum lægri en hin er þá ekki rökrétt að tala um afslátt. Ýmsar tölur eru settar í pott og hrært vandlega í og útkoman á að vera og þarf að vera 450 milljarðar. En er hún það? Ég leyfi mér bara að efast um það. Auðvitað er gott að losna við hrundraugana sem flesta áður en næsta hrun skellur á. En öllu má samt ofgera. Og svo er ekki einu sinni víst að aðrir en slitastjórnirnar losni úr höftunum. Skilst mér.
Þetta var pólitíkin i innlegginu, en nú er ég hættur.
Og bílafljótið streymir áfram.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.