2363 - Góða tungl

Einn er sá fídus í nýja stýrikerfinu (Windows númer 10) sem mér finnst nokkuð sniðugur. Hann er þannig að þegar ég t.d. er að skoða bloggið mitt þá birtist efst á skjánum táknmynd fyrir bók og ef ég smelli á hana með músinni birtast bloggin mín (án fyrirsagnar) hvert á eftir öðru eins og í bók. Þetta er nokkuð handhægt, en nær samt ekki nema svona til 2013 að mig minnir. Held að ég hafi byrjað að blogga talsvert fyrr en það enda eru þau orðin svo mörg að til vandræða horfir. Svakalega er ég annars búinn að blogga mikið um dagana.

Góða tungl um loft þú líður
ljúft við skýja silfurskaut.
Eins og viljinn alvalds býður
eftir þinni vissu braut.

Ekki grunar mig af hverju þessar ljóðlínur komu í hug mér áðan. Þetta hef ég eflaust lært í skólanum á sínum tíma og sennilega hef ég ekki munað eftir þessum ljóðlínum fyrr en núna. En af hverju? Líklegt er að það sem við lærum á barnsaldri hafi meiri áhrif á okkur en við gerum okkur oft í hugarlund. Núna mundi ég sennilega setja spurningarmerki við þetta með „alvalds viljann“, en þegar ég lærði þetta var ég áreiðanlega ekki þannig stemmdur. Annars minnir mig að það eigi að vera tunglmyrkvi núna einhvern daginn. Það gæti hafa leitt mig að þessu.

Ríkisstjórnin reynir að tefja flóttamannamálið sem mest hún má. Einhverntíma verður hún samt að sýna á spilin. Hætt er við að fáum líki sú sýn. Líklegast er að allt sé ómögulegt þegar á að gera eitthvað þó flest sé í lukkunnar velstandi þegar bara þarf að tala. Þessi heita kartafla lenti hjá ríkisstjórninni einsog eðlilegt var. Kannski hefði hún betur vísað því frá sér en svo var ekki.

Meðan ekki var um neinskonar ríkisstjórn Pelestínu að ræða á Vesturbakkanum var grjótkastið helsta vandamál Ísraelshers og því var svarað af mestu og best útbúnu hernaðarmaskínu svæðisins ef ekki heimsins alls af margföldu afli. Samt er það svo enn, að grjótkastið er það sem Ísraelski herinn óttast mest. Meðan svo heldur áfram er lítil von um samkomulag milli aðila.

Þegar ég tilfæri vísur í texta mínum. Hvort sem um er að ræða bloggið sjálf, boðnarmjöðinn á fésbókinni eða í tilsvörum hvar sem er hef ég reynt að halda mig við þá venju að segja frá því ef vísan er ekki eftir mig. Ef ég segi ekkert um uppruna hennar er næstum öruggt að hún er eftir mig sjálfan. Þetta segi ég ekki til að upphefja mig enda er þarna oft um afar ósnjallar vísur að ræða. Vísur eftir aðra sem ég tilfæri eru yfirleitt mjög góðar og fleirum kunnar. Annars er feðrun vísna sérfag sem ég hef afar lítinn áhuga á. Man þó (að ég held) eftir flestum mínum vísum sem sæmilegar eru. Látum hnoðið liggja á milli hluta.

WP 20150803 10 13 33 ProFyrir sjósundið, eða eftir?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband