2362 - Haustveðrið yfir oss

Einsog ég er oft vanur að gera þá ætla ég að byrja á næsta bloggi rétt eftir að ég hef póstað því síðasta.

Það var ekki nóg með að blómapottur lemdist utaní svalahandriðið með talsverðum hávaða, heldur fauk líka af snúrudótinu okkar í fyrstu alvöru haustlægðinni sem kom hingað upp á Akranes í kvöld. (8. Sept 2015.) Held samt að ekkert hafi skemmst, týnst eða eyðilagst enda eigum við ekkert trampólín. Hef samt aldrei veðurhræddur verið og sýnist þetta ósköp meinlaust.

Flóttamannavandamálið vindur sífellt uppá sig. Helsta röksemd þeirra sem ekkert vilja gera er að athuga þurfi ástæður þess að svo illa er komið sem raun ber vitni. (Sumir vona kannski að sú athugun taki sem lengstan tíma svo vandamálið verði að mestu horfið fyrir annarra tilverknað þegar athuguninni lýkur.) Þó sumir þeirra sem hæst hafa útaf þessu hafi oft haft tækifæri til að láta í sér heyra, breytir það engu um neyð þeirra sem flóttamenn eru. Skylda Evrópubúa er að sinna þessu máli. Skömm Evrópusambandsins sem heykst hefur á því að móta samræmda stefnu í þessu máli er mikil og mun bara aukast. Margir þeirra sem hingað til hafa stutt samvinnu Evrópuþjóða munu eflaust hætta því með hliðsjón af þessum málum. Það eina sem ESB hefur hingað til gert er að útvega úrtölumönnum þvínær skothelda afsökun.

Helena Benediktsdóttir Haydarly átti 3ja ára afmæli í dag og að sjálfsögðu var mikið um dýrðir af því tilefni. Stórfjölskyldan (sem er orðin talsvert stór) hittist öll í Hafnarfirðinum og afmælisgjafirnar voru margar og eftirminnilegar. M.a. fjarstýrður bíll sem varla hefði verið gefinn 3ja ára barni þegar ég var lítill. En það er nú svo langt síðan. Hugleiðingar mínar um þetta mál eru að sjálfsögðu mesta markleysa því afmælisbarnið mundi eflaust hafa haft þetta alltöðruvísi. Svo er Tinnuafmæli á næstunni (12. október) en þá verður hún 6 ára. Ekki vantar samt að hún sé byrjuð í skólanum þrátt fyrir það.

Í rauninni gerist heldur fátt þessa dagana og það er bara gott. „Engar fréttir eru góðar fréttir“ var einhverntíma sagt. Ekki ætti það samt að verða okkur bloggurum neinn fjötur um fót. Við eru vanir því að skrifa um allt og ekkert. (Nema auðvitað fréttabloggararnir.) og aðallega um ekkert. Sem leiðir mig að því sem ég hef oft velt fyrir mér. En það er hvaða fyrirmæli blaðamannsveslingarnir fá sem skrifa baksíðuhugleiðingarnar í Fréttablaðið. „Hafið það stutt, persónulegt og ómerkilegt,“ ímynda ég mér.

Nú er að koma að því. Ég verð að fara að finna mér rakarastofu hér á Akranesi. Ég er nefnilega að verða ansi loðinn. Þær hljóta að vera nokkrar hér í bænum. Ef ekki þá er Reykjavík svosem ekki í óyfirstíganlegri fjarlægð.

WP 20150803 10 13 04 ProLangisandur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband