2358 - RJF

Líklega hef ég ekki lesið eins mikið um nokkurn einn mann einsog Robert James Fischer. Á stundum hefur mér fundist ég skilja furðuvel athafnir og gerðir jafnfullkomlega „asocial“ persónuleika. Samt eru nokkur atriði í æfi hans sem ég hef allsekki getað skilið. Í gærkvöldi komst ég að því að ég hef ekki lesið af mikilli athygli bókina „Bobby Fischer goes to war“ þegar hún kom út árið 2004. Fékk hana lánaða hjá syni mínum og er að lesa hana núna ásamt með bókunum „A short history of nearly everything“ og „Atomic Times“, sem mig minnir að ég hafi minnst á hér á blogginu mínu. Já, áhugamál mín eru undirfurðuleg.

Oft hef ég fleiri en þrjár bækur í takinu í einu, svo það er alls ekkert merkilegt þó ég minnist á þessar bækur allar. Fór að mig minnir á bókasafnið hérna á Skaganum annaðhvort í gær eða fyrradag. Það getur vel verið að ég gluggi í þær bækur sem ég fékk þar lánaðar. Held að þær hafi verið sex talsins. Þar sá ég meðal annars hnausþykka og níðþunga bók sem fjallaði bara um landsleiki Íslands í fótbolta. Kannski væri óvitlaust að glugga í þá bók á staðnum. En að fara að rogast með hana út í bíl datt mér ekki í hug. Bækur af þessu tagi finnst mér eiga betur heima á Internetinu. Sennilega er ég að tala um þessa bók vegna þess að mér blöskraði þyngdin og fyrirferðin á Sögu Akraness sem kom út í nokkrum bindum fyrir skömmu. Er hugsanlegt að einhverjir gefi út bækur aðallega fyrir bókasöfnin í landinu? Svona þykkar og þungar bækur hljóta að kosta eitthvað.

Get ekki almennilega varist þeirri hugsun að kalda stríðið og allt sem því fylgir sé að koma aftur. Auðvitað verður það samt ekki eins. Nýja hrunið verður það ekki heldur. Óttinn við notkun kjarorkuvopna gæti þó komið aftur. Útbreiðsla þeirra hefur ekki orðið eins ör og sumir óttuðust. Ekki hefur þó tekist að banna þau með öllu. Stórveldin hafa bæði leynt og ljóst gert tilraunir með áhrif geislunar á fólk. Þó ekki sé hægt að segja að friðvænlegt sé í heiminum núna hafa þó átakapunktarnir færst til og jafnvel má halda fram að framfarir hafi orðið, þegar á heildina er litið.

Útgerðarauðvaldið hefur sennilega skotið sig í fótinn með því að ýkja væntanleg áhrif af viðskiptabanni Rússa. Ákvörðunin um að fylgja fremur NATO og EBE en Sovétríkjunum og Rússum var tekin fyrir löngu (þegar gengið var í NATO árið 1949) Þó sú ákvörðun hafi verið umdeild á sínum tíma finnst mér ekki ástæða til að breyta því þó fáeinir stórútgerðarmenn væli svolítið. Íslendingar eru samt vanir að elta peningana hvar sem þá er að finna. Ekki kæmi mér á óvart þó framsóknarmenn reyni að notfæra sér makríl-sönginn og íslam-óttann eins og þeir geta í næstu kosningum. Hræðilegt hlutskipti fyrir flokk sem einu sinni var bændaflokkur umfram allt annað.

WP 20150725 14 42 49 ProBlokkin „okkar“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sæmundur.

Framkoma Bandaríkjamanna gagnvart Fischer
sem einmitt hafði ritað sögu þeirra í
skákbækur framtíðarinnar var skammarleg;
svívirðileg.

Þeir geymdu hann sem dýr í búri, á frímerki einhverju
í fót- og handjárnum og þeir Guðmundur Þórarinsson,
Sæmi rokk og Kári Stefánsson eiga eilífa þökk fyrir framtak
sitt að bjarga honum.

Nota tækifærið og skora á Kára Stefánsson
að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands
AD 2016.

Húsari. 26.8.2015 kl. 20:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband