2355 - Tyrfður innipúki

Ekki vissi ég að það þyrfti að setja torfur á malbik (eða parkett) þar sem innipúkamenn ætla að skemmta sér. Upphaflega held ég að þessi innipúkahátíð hafi verið tilkomin vegna þess að ekki nenntu allir í útilegu um verzlunarmannahelgina (með setu). Nú er svo komið samkvæmt fréttablaðinu (ekki lýgur það) að nauðsynlegt er að tyrfa svæðið þar sem hátíðin er haldin svo það líkist sem mest venjulegri útihátíð.

Tvennt er það sem ég hef lagt sérstaka áherslu á í heilsuátak því sem ég ákvað að fara í fyrir um það bil ári. Sykur hef ég alveg leitt hjá mér því hann er ekkert annað en eiturlyf. Hann læðist að vísu stundum að manni í mjókurvörum, ávöxtum og þess háttar. Annars eru hvítur sykur, hvítt hveiti og þar af leiðandi flestar kökur og brauð á hálfgerðum bannlista hjá mér. Að vera katólskari en páfinn í þessum efnum dettur mér þó ekki í hug. Ég vigta ekki það sem ég læt ofan í mig og borða stundum mikið. Gengur þó illa að komast niður fyrir 100 kílóa múrinn. Hef undafarið haldið mig í kringum 105 kílóin.

Hitt atriðið er að ég las í fyrrahaust bók sem minnir að heiti: „The heeling power of walking“ og var ókeypis á Amazon eins og 50 til 60 þúsund aðrar bækur. Bókin sem ég er að lesa um þessar mundir er um vetnissprengjutilraunir Bandaríkjamanna á sjötta áratug síðustu aldar og heitir: The Atomic Times og er eftir Michael Harris. Bók þessi vakti talsverða athygli í Bandaríkjunum þegar hún kom fyrst út fyrir nokkrum árum, en er ókeypis núna á Amazon. Höfundur dvaldi í raun og veru í herbúðum á þessu svæði á þeim tíma. Bókin er einkennilega fyndin og sorgleg í senn. Lýsingarnar á sprengingunum ógleymanlegar.

Ég er svo gamall að ég þarf ekkert að borga í bókasafninu, sem virðist vera alveg ágætt hér á Akranesi. En ég hef látið boðskapinn í göngubókinni ná þvílíkum tökum á mér að ég fer út að ganga næstum alla daga ársins og hefur á þann hátt (ásamt öðru) tekist að ná af mér „kviðfitunni“ eins og heimilislæknirinn minn orðaði það svo fagurlega.

Ósköp er hann orðinn þreytulegur þessi hænsnatreiler hjá RUV. Hef ekki haft neina nenningu til að horfa á hraðfréttabræður þjóta um landið. Horfði að ég held á tvo fyrstu þættina og fannst þeir óttalega vandræðalegir og hef ekki horft á þá síðan. Fréttirnar nægja mér alveg.

Það sem gerist í heiminin skiptir mig sífellt minna máli. Sennilega er þetta ellimerki. Konan mín og krakkarnir, afastelpurnar tvær og allt sem þeim tengist og nánustu ættmennum mínum skiptir mig meira máli en hvað rússneska ríkisstjórnin gerir. Á ekki von á að að hún þrengi þumalskrúfurnar á okkur meira. Líklega er bara verið að hræða útgerðarmennina.

WP 20150725 07 53 50 ProVið vörðuna sný ég oftast við á morgnana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband