2342 - Skylduræknisblogg

Tek eftir því að eftir að ég kom hingað á Akranes blogga ég miklu sjaldnar en áður. Mér finnst ég líka vera búinn að blogga um svo margt að það sé ekki mikið meira að segja. Mér líður eiginlega eins og ég sé í sumarfríi á lúxushóteli. Merkilegast er að starfsfólkið í búðunum og allsstaðar skuli tala íslensku.

„Undarleg ósköp að deyja.“ sagði skáldið. Samt mun það eiga fyrir öllum að liggja. Undarlegt væri ef svo væri ekki. Að hverju ætti þá að keppa? Flestir keppast við að lifa sem lengst. Líka ég. Furðumargir vilja þó ekki viðurkenna það. Þykjast vera að keppa að einhverju öðru og segja að sér sé alveg sama þó þeir drepist. Lífsviljinn er eitthvert sterkasta aflið í manninum. Það álít ég a.m.k. Annars eru þetta lítilsverðar speglasjónir. Það að segja speglasjónir í stað spekúlasjónir er dæmi um sæmilega vel heppnaðan útúrsnúning eða hljóðlíkingarþýðingu.

Ég hef svosem ekki frá neinu markverðu að segja, heldur blogga fyrst og fremst af gömlum vana. Hef tekið eftir þvi að einhverjir hafa það greinilega fyrir sið að lesa bloggið mitt. Þ.e.a.s. ef þar er eitthvað að finna. Sama hversu ómerkilegt það er. Svo trúföstum lesendum finnst mér ég verða að verðlauna með vikulegu bloggi eða svo. Hversdagurinn hefur nú tekið völdin í nýju og fínu íbúðinni okkar hér á Akranesi. Hann er nú ekkert lamb að leika sér við. Hann getur verið erfiður að komast í gegnum. Best er samt að hafa eitthvað fyrir stafni. Láta sig hlakka til einhvers. Ég hlakka t.d. til að sjá sýninguna hjá Bjössa í bílskúrnum að Hveramörk 6, þegar ég verð þar á ferðinni í ágúst. Já, og svo hlakka ég auðvitað til að búa í viku í Ölfusborgum.

Hver maður er efni í a.m.k. eina bók eða svo. Þannig að ævisögur gætu hæglega verið jafnmargar fólkinu á jörðinni. Þá væru allar hinar eftir. Og þær gætu a.m.k. verið jafnmargar. Þá erum við komin með vænan bókastabba. Ætli það borgaði sig ekki bara að hafa það rafbækur. Þær mundu a.m.k. taka minna pláss. Bráðum verða þær jafnmargar og hinar – ef ekki fleiri. Jafnvel þó íslenskir bókaútgefendur berjist gegn þeim af öllum mætti. – Eins og þeir sannanlega gera. Amazon og aðrir risar eiga eftir að taka bókaúgáfuna með trompi, eins og allt annað.

Ef það að borga reikninga er það langmikilvægasta sem þú gerir með símanum þínum getur vel verið að þær sekúndur sem þú getur sparað með banka-appi skipti sköpum fyrir þig og þá er sjálfsagt að nálgast slíkt. Ekki er þó sjálfgefið að það svari kostnaði.

WP 20150617 08 38 23 ProBíóhöllin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband