19.4.2007 | 23:57
31. blogg
Nú er sumardagurinn fyrsti að kveldi kominn og góður tími til að skrifa smá þó langt sé síðan ég bloggaði síðast. Við því er ekkert að gera, ég blogga bara þegar mér sýnist. Giftingin með öllu sínu stressi er afstaðin og viss ró farin að færast yfir tilveruna. Allt tókst þetta bærilega að ég held og varla ástæða til að fjölyrða mikið um það hér. Bjarni og Charmaine eru í sumarbústað við Húsafell þessa vikuna. Hafdís og Jói fóru í heimsókn til þeirra í dag og við Áslaug förum líklega þangað ásamt Benna á laugardaginn kemur. Benni er búinn að ganga frá sölu á íbúðinni sinni og er nú að leita sér að nýrri.
Kosningarnar nálgast eins og óð fluga en ég nenni ekki að blogga mikið um þær. Skoðanakannanir sveiflast talsvert fram og aftur og það sem mér finnst þær einkum sýna er að framtíð núverandi ríkisstjórnar er í mikilli óvissu, auk þess sem svo er að sjá að Fjórflokkurinn svonefndi sé að festa sig aftur í sessi, þó tveir flokkanna beri ný nöfn.
Eflaust eru það ellimörk, en mér finnst gaman að skrifa þessi minningabrot sem ég hef verið að hamra hér á lyklaborð að undanförnu. Ég reyni að telja mér trú um að einhverjir sem hingað slæðast hafi gaman af að lesa þetta. Einn er þó sá atburður sem ég hef ekki minnst á, en sem stendur mér þó jafnan ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, en það er þegar brann heima. Eiginlega er ekki hægt að afgreiða þann atburð í stuttu máli svo ég er að hugsa um að hafa þau brot eins og nokkurs konar framhaldssögu hérna og e.t.v. að flétta inn í hana frásögnum af ýmsu öðru.
ÞEGAR BLÁFELL BRANN
Þegar níu ára gamall drengurinn kom út fór hann strax að brunarústunum. Þarna hafði heimili hans verið þangað til í nótt. Hann hafði fæðst í þessu húsi og alið þar allan sinn aldur. Nú var allt brunnið til kaldra kola. Ekki einu sinni flekkóttir veggir uppistandandi, því þetta hafði verið timburhús. Alveg ný viðbygging hafði þó verið klædd að utan með asbesti og um nóttina þegar mest gekk á höfðu smellirnir í asbestinu verið eins og vélbyssuskothríð. Nú var þetta allt saman kolsvart og ólögulegt, hálfbrunnar sperrur, upprúllað járn af þakinu, brunnin húsgögn og hvaðeina allt í einni bendu. Yfir öllu gnæfði samt svartur og sótugur klósettkassi úr járni eða einhverjum málmi á sínu járnröri. Keðjan sem togað var í til að sturta niður með var meira að segja á sínum stað.
Hann fann eiginlega ekki til neinna sérstakra tilfinninga, eiginlega kom honum þetta ekki svo mikið við. Foreldrar hans myndu ráða framúr þeim vandamálum sem við blöstu og það var svosem ekkert sérstakt sem hann saknaði. Engin áhugaverð föt eða merkileg leikföng. Vinir hans og félagar mundu áfram verða til staðar, systkinin og foreldrarnir einhvers staðar nálægt eins og venjulega, skólinn á sínum stað o.s.frv. Eiginlega var ekki til neins að vera að hanga yfir þessu. Nær að reyna að fara eitthvað. Nú var hann með alveg pottþétta afsökun fyrir því að læra ekki neitt. Ekki það að hann þyrfti yfirleitt mikið að læra. Honum gekk alveg prýðilega í skólanum án þess. Hann nennti ekki einu sinni að gá að því hvort nokkuð nýtilegt eða merkilegt væri að finna í rústunum heldur rölti af stað upp að Reykafossi og Kaupfélaginu, þar mundi hann eflaust hitta einhverja af félögum sínum.
(framhald síðar)
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.