2341 - Að blogga

„Hvers vegna sjá eigendur Árvakurs - Guðbjörg Matthíasdóttir, Þorsteinn Már Baldvinsson, Kaupfélag Skagfirðinga, Gunnþór Ingvason, Ólafur Marteinsson, Sigurbjörn Magnússon og fleiri, sem eru eigendur ýmist af sjálfsdáðum eða fyrir hönd annarra - ekki að þeir eru að skaða heilbrigði íslensks samfélags með því að hafa ritstjóra í vinnu sem hefur hag af og hikar ekki við að reyna markvisst að villa um fyrir lesendum sínum í eiginhagsmunaskyni?" Sömu spurningu má svo einnig beina til starfsfólks Morgunblaðsins.

Þetta rakst ég á rétt áðan og er svosem alveg sammála því. Vonandi á þetta þó ekki við um „Moggabloggara“. Tel mig engan stuðningsmann Davíðs Oddssonar þó hann hafi gert ýmislegt gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Man samt vel eftir því að ég missti endanlega trúna á hann þegar hann hélt því fram að ÓRG væri vanhæfur til einhvers vegna þess að dóttir hans vann hjá einhverjum sem honum var illa við. Að forsætisráðherra skyldi geta látið annað eins bull útúr sér ofbauð mér algjörlega.

Held að Grikkir verði gjaldþrota í alvörunni á næstunni. Einnig að núverandi ríkisstjórn heykist á því að halda áfram. Óvinsældir hennar aukast líka í sífellu. Þjóðhátíðarbaulið á ekki eftir að valda neinum straumhvörfum eins og Guðni Th. vill meina. Vitanlega er það svolítið óviðeigandi, en vorkunn er þeim samt sem umfram allt vilja koma hremmingum sínum á framfæri. Sennilega er það ekki í mannlegu valdi að skapa réttlátt þjóðfélag fyrir alla meðlimi þess.

Er alls ekki að draga úr því að mér finnst hafa vorað bæði seint og illa undanfarið. Get samt ekki annað en spurt: Erum við ekki bara svo góðu vön? Undanfarin ár hafa nefnilega verið óvenju góð að þessu leyti. Annars er það úrkoman sem mér finnst versti óvinurinn. A.m.k. er það svo á gönguferðum. Kulda er auðvelt að klæða af sér. Verra með skúrirnar (skúrana) þær koma oftast á óvart.

Eiginlega líkar mér alveg stórvel að búa hér á Akranesi. Lyftan klikkar aldrei (7-9-13) og allt í toppstandi. Hef lítil orðið var við nágrannana. Einangrun er orðin svo svakalega góð í nýlegum fjölbylishúsum. Hef afar fás að sakna úr Kópavoginum. Húsið var eldgamalt og svolítið farið að láta á sjá. Þessi blokk er hinsvegar ný byggð og í toppstandi. Svo er maður mun nær krökkunum sínum hérna (þó ekki öllum) og það er stutt að fara á milli. Kannski förum við á Suðurlandið fljótlega. Þar þekkjum við líka fjölmarga.

Það er alveg ágætt að blogga sem sjaldnast. A.m.k. ef maður hefur ekkert að segja. Mér finnst ekki taka því að blogga mikið þessa dagana. Kannski breytist þetta einhverntíma, en eins og er finnst mér þetta ágætt. Það er engin ástæða til þess að blogga bara til þess að blogga. Það gerði ég samt einu sinni. Þá fannst mér tilheyra að blogga á hverjum degi. Vona að ég taki ekki uppá þeirri vitleysu aftur. Auðvitað mætti einnhvað á milli vera. Mér finnst langt síðan ég bloggaði síðast. Hef samt sett einhverja speki á blað og er nú að hugsa um að losna við það.

Finn enga mynd til að setja í þetta blogg. Sennilega er bættur skaðinn. Hef þetta blogg bara myndlaust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband