2334 - Ferðast milli spítala

Ef háttvirtir (eða lágtvirtir) alþingismenn (hvort sem þeir tilheyra stjórn eða stjórnarandstöðu) eru ákveðnir í því að minnka enn virðingu alþingis með málþófi þá er ekkert hægt að gera við því. Í vaxandi mæli reyna menn þá að sniðganga þessa hundgömlu valdastofnun. Er þá ekki ríkisstjórnin næst og aðilar vinnumarkaðarins þar á eftir?

Menn komust að lokum útúr því gangrimlahjóli sem kallaðist „kalda stríðið“ . Eru samt hugsanlega á leið þangað aftur. Auðvelt væri fyrir þingmenn að komast úr málþófsgírnum með samstilltu átaki. Þó virðist enginn vilji til þess. Og áfram heldur traustið til þessarar stofnunar að minnka.

Nú er stund milli stríða hjá mér svo ég gæti svosem reynt að blogga smá. Líklegast er þó að ég sé ekkert að fást við þess háttar fyrr en ég kemst uppá Akranes. Slepp vonandi við öll áhrif af verkföllunum sem vel gætu verið að skella á. Á Akranesi verð ég á Hagaflöt númer 11. Fæstir sem þetta lesa hafa þó nokkuð að gera með að vita það. Símanúmer og tölvupóstur verður líklega eins og áður og ekki er líklegt að það valdi mér nokkrum vandræðum.

Svolítið lætur sumarið bíða eftir sér. Þessa dagana er kannski frekar kalt, en miðað við hnattstöðu er svosem engin ástæða til að kvarta.

Hugsanlegt er að teknar verði upp skákæfingar í vetur á vegum UMSB og þá væntanlega undir forystu Bjarna sonar míns. Líklega mundi ég reyna að taka þátt í þeim þó ég hafi enga von með að komast í lið þar nema sem varamaður. A-sveit UMSB gerði sér lítið fyrir og komst uppí aðra deild í fyrra. Ekki á ég von á að tekið verði á henni með einhverjum silkihönskum þar.

Einsog sjá mátti á síðasta bloggi mínu þá er stórhættulegt að skrifa mér! Ég gæti átt það til að birta bréfin á blogginu mínu. Höfundarréttarmál eru mér talsvert áhugamál frá fornu fari. Þegar ég sá um Netútgáfuna (http://snerpa.is/net/ ) þurfti ég að þekkja þau mál talsvert. Nú er ég orðinn ábyrgðarlaus með öllu að því leyti, en áhuginn er samt fyrir hendi. Hef vanið mig á að allt sem ég skrifa, bæði á blogg og fésbók, sé opið öllum. Auðvitað er samt hægt að gera undantekningar á því. Hemmelighedskræmmeri virðist mér þó vera ofarlega í huga margra þeirra sem á fésbók rita.

Jæja, þá hef ég farið í sjúkrabíl og á sjúkrabörum milli spítala. Eftirá sé ég að það var reynsla sem ég átti alveg eftir. Fór s.l. fimmtudagsmorgun á bráðamóttökuna á Hringbraut vegna verks í handlegg. Þegar fólkið þar var búið að fá leið á mér var ég sendur á Borgarspítalann og svo heim í gær. Nú er búið að ná blóðþrýstingnum talsvert niður m.a. með nýjum lyfjum og þessvegna er ég ekki dauður enn og held áfram að blogga. Geri ekki ráð fyrir að margir vilji heyra sjúkrasöguna alla svo ég sleppi henni.

IMG 2264Útifundur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband