30. blogg

 

27. og 28. blogg eru komin fram aftur og ég held jafnvel að ég sé búinn að fatta þetta með greinaskilin. Kannski er betri tíð með blóm í haga í vændum. Aðalspurningin er bara hvað ég nenni að blogga.

Teljarinn er ótrúlega hár en ég er ekkert að velta mér uppúr því. Greinilegt er að einhverjir lesa þetta og það dugar mér alveg. En ég nenni ómögulega að blogga nema þegar mér sjálfum dettur í hug.

Skrif mín hér eru einkum ætluð ættingjum til lesturs. Ef einhverjir aðrir slysast til að lesa þetta þá er það bara allt í lagi. Undalregt uppátæki að skrifa dagbók á Netinu. Þó er þetta þegar grannt er skoðað e.t.v. ekki skrýtara en margt annað.

Ég les alltaf talsvert af bloggum, svona eftir því sem ég hef tíma til. Það er ýmislegt að snúast hjá mér núna um þessar mundir og þar sem ég er ekki að stefna að neinu vinsældabloggi þá verða þessi skrif gjarnan útundan hjá mér.

Charmaine og Bjarni komu á sunnudaginn, en af því að það var einhver misskilningur í gangi varðandi vegabréfsáritun hennar þá stóð á tímabili til að vísa henni frá landinu. Svo fór þó ekki en þar sem sami misskilningur var í gangi varðandi mömmu hennar þá ákvað hún að hætta við að koma.

Á annan í páskum fórum við Áslaug og ég ásamt Bjarna, Charmaine, Benna, Jóa og Hafdísi í smáferðalag. Fyrst fórum við að Eyrarbakka og Stokkseyri og síðan að Gullfossi og Geysi. Fórum af stað um 10 leytið um morguninn og komum aftur um fjögur. Áslaug fór síðan í fermingarveislu, en ég að vinna.

Giftingin er svo á laugardaginn. Ég veit ekki betur en að öll mín systkini komi. Veit þó ekki með Björgvin og líklega kemur Unnur ekki nema í kirkjuna. Charmaine er svo að ég held með dvalarleyfi til næstu mánaðamóta, en fer þá væntanlega aftur til Bahamas og Bjarni svo e.t.v. síðan í sumar á eftir henni þangað.

Mótinu á Gameknot.com er nú að ljúka. Bjarni, Þorgeir og Þórður í Strympu eru efstir og ef Þorgeir nær hálfum eða heilum vinning í seinni skákinni við mig þá verður hann efstur.

Þegar ég stundaði nám við Miðskóla Hveragerðis undir lok sjötta áratugar síðustu aldar var einn af kennurum mínum séra Gunnar Benediktsson, klerkur, kommúnisti, rithöfundur og margt fleira. Einhverju sinni var séra Gunnar að kenna okkur stærðfræði. Líklega hefur það verið í forföllum, því ég man ekki til þess að stærðfræðikennsla væri hans fag. Hins vegar var hann óviðjafnanlegur íslenskukennari  og ég man ekki betur en að hann hafi kennt okkur dönsku líka.

Þegar sá sem tekinn hafði verið upp að töflu hafði lokið við að skrifa dæmið upp sagði Gunnar: "Ég held að best sé að byrja á því að útrýma öllum kommum."

Það var ekki fyrr en almennur hlátur glumdi við í skólastofunni sem Gunnar áttaði sig á tvíræðni orðalagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband