7.4.2015 | 07:24
2311- Úr gömlu bloggi o.fl.
Spilling er talsverð hér á Íslandi. Erfitt er að stoppa hana. Einfaldlega vegna þess að oftast er ekki hægt að sanna, með óyggjandi hætti, að farið hafi verið á svig við lögin. Löglegt en siðlaust sagði Vilmundur Gylfason fyrir margt löngu. Mér finnst ekki að það eigi að sætta sig við spillinguna þó oft sé erfitt að eiga við hana. Þjóðfélög geta þróast í ýmsar áttir eftir því hvernig tekið er á spillingarmálum. Spilling er allsstaðar. Þýðingarlaust er að neita því.
Auðvitað er hægt að finna hægri stefnu ýmislegt til foráttu. Jafnvel umfram vinstri stefnu. Þó Sovéska sæluríkið sé eitur í þeirra beinum. Stjórnmálum lauk ekki um leið og kalda stríðinu. Halda má því fram að hér á Íslandi hafi sóknin frá örbirgð til bjargálna verið óvenju hröð. Kannski var það blessað stríðið sem olli þessu, kannski fiskurinn á miðunum og kannski eitthvað allt annað. Vitanlega er líka hægt að halda því fram líka að framfarirnar hafi orðið þrátt fyrir ytri aðstæðurnar en ekki vegna þeirra. Annars eru þetta allt saman lúxusvandamál sem við erum að fást við.
Eftir því sem DV segir þá er Bubbi Mortens orðinn Pírati. Það þykir mér nokkuð langt gengið en get samt vel skilið hann. Þó Vilhjálmur Bjarnason haldi því fram að stjórnmálaflokkurinn Píratar berjist fyrir ólöglegu niðurhali þá verður það ekki rétt með því. Lög geta verið bæði sanngjörn og ósanngjörn. Sumir skilja fyrr en skellur í tönnum en þó ekki allir. Með því að láta alþjóðleg stórfyrirtæki ráða lagasetningu geta eðlileg kynslóðaskipti orðið hatrömm og illvíg.
Það má ekki reisa moskuna þarna. Það má ekki nota þessa peninga til að reisa mosku. Kannski skiptir einhverju máli hvaða starfsemi kemur til með að fara fram í húsinu. Ég er búinn að missa alla trú á stjórnmálamanninum Ingibjörgu Sólrúnu. Hins vegar man ég vel eftir Sverri Agnarssyni og ég hef fulla trú á honum.
Eftirfarandi skrifaði ég fyrir sjö árum eða svo. Blogg númer 303 var það:
Guðlaugur var lítill, varla meðalmaður, skolhærður, alltaf með húfu. Snemma varð hann sköllóttur, hafði gaman af að þrasa.
Svona er móðurafa mínum lýst. Ég get ekki að því gert að mér finnst þetta snilldarleg mannlýsing. Hún er komin frá frænku minni Báru Sigurjónsdóttur, en Guðlaugur var einnig afi hennar.
Annars er þetta af vef sem systursonur minn Atli Vilhelm Harðarson hefur komið upp í tilefni af því að til stendur að halda ættarmót í sumar. (ath. að þetta er eldgömul færsla) Ættingjum mínum sem hingað kunna að rekast vil ég benda á að urlið er "www.gvendarkot.tk/"
Margt er merkilegt á þessari vefsíðu. Meðal annars fjöldi mynda. Einnig eru þar nokkrar vísur sem hafðar eru eftir Ingibjörgu systur minni. Sumar þessara vísna kannast ég líka við, svona þegar ég sé þær uppskrifaðar. Vonandi tekur Ingibjörg það ekki illa upp, þó ég birti þessar vísur hér:
Súlurýju rak á vog,
rétt upp í hann Sigurð.
Hún var tíu álnir og
eftir því á digurð.
Hafið þið heyrt um hann Hóla-Jón?
Hann ætlaði að fara í verið.
Dallurinn allur datt í spón
og drengjunum gaf hann smérið.
Á ég að segja þér sögu
af kerlingunni rögu?
Hún fór á milli fjóss og hlöðu
og flengdi sig með snarpri grautarþvögu.
Einu sinni átti ég gott
á allri æfi minni.
Þá var soðinn rjúpurass,
reittur upp úr skinni
hjá henni stjúpu minni.
Þar sem Ingibjörg talar um "grautarþvögu" minnir mig endilega að vani hafi verið að segja "rjómaþvögu". Ég hef samt enga hugmynd um hvernig slíkt verkfæri er. Í sömu vísu fannst mér líka alltaf að verið væri að tala um kerlingu sem héti Raga, en ekki um kerlingu sem væri rög.
Tvær aðrar vísur kann ég, en man ekki hvort ég lærði þær af ömmu Jórunni eða mömmu minni. Þær eru svona:
Andrés minn í eyjunum,
er að róa núna.
Fiskinn ber á fleyjunum
og færir krakkagreyjunum.
Þarna kann síðan að hafa verið ein ljóðlína til viðbótar, en ég man hana ekki.
Hin er svona. Og þegar farið var með hana áttu tveir að sitja flötum beinum á gólfinu, takast í hendur, spyrna saman iljum og togast á:
Við skulum róa á selabát,
fyrst við erum fjórir.
Það eru bæði þú og ég,
stýrimaður og stjóri.
Af því ég hef ástæðu til að ætla að fleiri en ættingjar mínir lesi þetta blogg var ég að hugsa um að bæta hér við fáeinum orðum um ættarmót almennt, en dettur bara ekkert gáfulegt í hug.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.