2310 - Póstbítingar o.fl.

Skelfing er fésbókin leiðinleg. Hún festir fólk í allskonar vitleysu. Og pólitíkin dregur dám af henni. Vitleysunni altsvo, meina ég. Mér finnst að stjórnmálin séu með vitlausasta móti núumstundir. Hvað skyldi koma útúr þessu? Maður ræður því ekki einu sinni sjálfur (nema að takmörkuðu leyti) hvað maður skoðar á fésbókinni. Nú er ég semsagt farinn að tala um hana aftur. Voðalegur ruglingur er þetta. Fésbókarfræðingur vil ég síst að öllu verða. Gott ef þeir eru ekki þegar orðnir of margir. Sjálfur er ég líklega að verða Moggabloggsfræðingur. Ætli það sé skárra? Sennilega er Jónas Kristjánsson minn helsti mentor í bloggskrifum. Var nefnilega að lesa hann áðan, eftir að hafa trassað það í fáeina daga.

Einu sinni beit hundur hana Guðnýju frænku mína þegar hún var að bera út póst. Vitanlega er hundum illa við póstburðarfólk. Þeir skilja það yfirleitt svo að þeir eigi að passa húsið á meðan yfirhundurinn er fjarverandi. Svo kemur pósturinn og fer að fikta í húsinu. Jæja, þetta áttu nú ekki að vera heimspekilegar hugleiðingar heldur frásögn af eftirminnilegum atburði. Þegar ég frétti af þessu var ég í heimsókn hjá Ingibjörgu systur minni og hún spurði Guðnýju meðal annars spurningar sem sennilega fáir hafa spurt:

„Hvað gerði hundurinn svo eftir að hann var búinn að bíta þig?“

„Nú, hann fór bara í burtu.“

Hvað átti hann svosem að gera annað? Hann var búinn að sinna sínu hlutverki. Í eftirleiknum var hundurinn síðan dæmdur og léttvægur fundinn. Ekki þó fyrir tilverknað Guðnýjar.

Allt er nú til á Internetinu. Þar er til dæmis til sérstök síða sem heitir: „Sigmundur Davíð horfir á hluti.“ Að vísu er hún ekki nærri eins krassandi og síðan sem heitir: „Kim Jong Un looking at things.“ Samt er hún augljóslega sniðin eftir henni. Eflaust hefur verið sagt frá þessu fyrr einhvers staðar, en ég hef ekki séð þetta fyrr en nú nýlega. Ó, afsakið. Hefði ég átt að birta linka hér? Gagnvart höfundarréttarlögum er þó aldrei of varlega farið. Gúglið bara sjálf.

Er skák nördaleg? Að minnsta kosti er búið að úthýsa henni að mestu leyti mjög víða. Fréttir af henni er alls ekki að finna í útbreiddum fjölmiðlum. Bækur um þessa nördalegu iðju eru þó fjölmargar. Áhuginn er víða fyrir hendi. Þegar Friðrik Ólafsson var uppá sitt allra besta og tefldi meðal annars í Wageningen og Portoros, voru skákfréttir samt á útsíðum dagblaða þess tíma. Svo er ekki lengur. Leikarafréttir og aðrar furðufréttur hafa tekið við. Er það afturför? Kannski ekki. Margt um skák má finna á Internetinu og jafnvel á fésbókinni.

WP 20150310 08 53 53 ProSveit í borg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband