29. blogg

    Margt er skrýtið í kýrhausnum og ekki síður í Moggablogginu. Núna get ég t.d. ekki séð nema 26. blogg hjá sjálfum mér (og væntanlega líka það sem eldra er) ef ég fer á venjulegan hátt inn á bloggið mitt. 27. og 28. blogg eru samt þarna líka og ef ég fer á þau vinstra megin á síðunni þá fæ ég þau upp, en þó eins og þau birtast þegar maður er að skoða athugasemdir, þ.e. bara eitt í einu. Þá sé ég m.a. að Hlynur Þór virtist hafa lesið bloggið mitt því hann hefur skrifað athugasemd í framhaldi af „in memoriam" hugleiðingum  mínum.

   Til að toppa þetta allt saman er ég svo enn í vandræðum með greinaskilin. Ég þarf greinilega að fara að ýta frekar á „vista og skoða" hnappinn en hingað til hef ég yfirleitt ýtt á „vista og birta" hnappinn þegar ég er búinn að peista skrifin mín. Eða valið að taka Word skjal inn sem mig minnir að sé opsjón líka. Eitt af því sem örugglega veldur þessum vandræðum meðal annars er að ég er að nota ýmsar útgáfur af Word og hinar og þessar tölvur og nenni þar að auki ekki að kynna mér nákvæmlega stjórntæki bloggsins, en það breytir því ekki að Moggabloggið gæti verið betra. Fróðlegt verður að sjá hvernig þessu 29. bloggi reiðir af.

   En ekki meira um það að sinni. Um daginn fór ég til Bjarna og þeir Benni og hann settu sturtuna upp á baðinu og tengdu eldavélina. Bjarni fór síðan til London morguninn eftir og hann og Charmaine koma svo þaðan á sunnudaginn kemur,  að ég held. Í gær fór ég með Sigrúnu til Unnar sem nú dvelst á Sunnuhlíð. Ég lét líka gera við bremsurnar á Volvoinum sem biluðu hjá Bjarna um daginn þegar hann þurfti að nauðhemla til að forðast árekstur. Bjarni og Charmaine munu síðan gifta sig laugardaginn 14. apríl í Hallgrímskirkju.

   Lungnasérfræðingurinn sem skoðaði gögnin úr svefnrannsóknartækinu sem ég notaði um daginn vill að ég fari í svefnrannsókn á Landsspítalanum einhvern tíma á næstunni því margt bendi til að ég þjáist af kæfisvefni.

   Minningabrot, minningabrot... Jú, ég man eftir því að Ingimar í Fagrahvammi átti eitt sinn gríðarstóran Sankti Bernharðshund (það var áður en hann eignaðist Kalló, úlfhundinn fræga, sem ættaður var úr Geysi á Bárðabungu eins og margir vita) Hundurinn, sem ég man ómögulega hvað var kallaður beit eitt sinn strák í þorpinu svo flytja þurfti hann á sjúkrahús. Þá sagði bróðir stráksins: „Ég vildi að hann hefði bitið mig, þá hefði ég fengið að fara til Reykjavíkur". Þetta þótti hraustlega mælt og líka er á það að líta að á þeim tíma var mikið ævintýri að fá að fara í langferð eins og frá Hveragerði til Reykjavíkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband